Byrjum þetta aftur

Ég tók mér pásu í áskorunum því ég ákvað að asnast til að hlaupa heilt maraþon og æfa fyrir það. Það tók mikinn tíma og mikla orku, fyrir ekkert nema sársauka. En nóg um það, getið lesið allt um þá vitleysu hér.

Síðasta áskorun var í maí og þá ákvað ég að vakna 05:00 alla morgna. Það var nú meira ruglið. Fimman er of harkaleg. Erfitt að vera sofnaður klukkan 21 á kvöldin og ég náði sjaldan mínum átta tíma fegurðarblundi og var þá frekar leiðinlegur undir lok dags. Hins vegar, ef það er brjálað að gera hjá þér í vinnu, í skóla eða í lífinu almennt, þá er þetta góð leið til þess að komast á undan verkefnaskilakvíðanum. Mætir tilbúinn í vinnudaginn og ert kominn á undan öllum öðrum. Mæli ekki með að gera þetta til lengdar en að taka eina svona viku þegar það er mikið að gera getur hjálpað mikið.

Ég var ekkert búinn að ákveða fyrir september mánuð, þannig ég tók þennan klassíska. Ekkert nammi. Það var auðveldara en ég hélt. Náði Ínu með mér í það þannig þá var þetta ekkert mál.

En svo vinn ég hjá fyrirtæki sem flytur inn nammi og það er alltaf nammi á skrifstofunni og allir á skrifstofunni eru alltaf að tala um nammi. Það gerði þetta kannski erfiðara.

Voruði búin að smakka þetta ógeðslega góða nammi sem er hérna alveg við hliðiná borðinu hans Ara?
— Allir á skrifstofunni alltaf
Lookolook nammi

Nammi

Það allra versta við þennan mánuð voru Airbnb gestir mánaðarins.

Við eigum það til að leigja íbúðina út á Airbnb af og til og aldrei höfum við lent í neinu veseni.

Þar til núna.

Þetta voru yndisleg eldri hjón (að ég hélt) frá Bretlandi með fullt af góðum umsögnum, en eitt slæmt. Við tókum það sem bara gestgjafi með of miklar kröfur og samþykktum þeim sem gestum inn á okkar heimili. Allt í góðu með það. Þetta voru sex dagar. Venjulega koma túristar og þurfa bara stað til að sofa á. Eru ekkert mikið í íbúðinni, en það átti svo sannarlega ekki við þessa gesti. Þegar við komum inn þá blasti við okkur hryllingur. Íbúðin ógeðsleg. Ég get fyrirgefið það að þrífa ekki, en ég labba svo inn í herbergi dóttur minnar og þar sé ég eitthvað sem ég bjóst aldrei við að sjá.

Skítugar karlmannsnærbuxur á rúmi dóttur minnar.

Mig verkjaði í líkama og sál við að sjá þetta. Hver í fjandanum skilur eftir skítugar nærbuxur á barnarúmi? Einnig voru þau búin að endurskipuleggja eldhúsið. Mjög undarleg hegðun, greinilega ekki nógu sátt með skipulagið í eldhúsinu okkar.

I am not quite fond of this kitchen, we should rearrange everything and then I am going to leave my dirty underwear on their daughters crib, just to show them how I feel about their kitchen
— Svona ímynda ég mér að þetta hafi verið

Sjokker mánaðarins.

Það eru ekki nægilega margar sturtur sem ég get tekið til þess að skola af mér þessa gesti. Þannig við ákváðum að loka á Airbnb í óákveðin tíma. Þessi eldri hjón eyðilögðu Bretland fyrir mig. Pælið í því að vera það skítugur að þú eyðileggur heila þjóð fyrir einhverjum.

Bönnum Bretland

Þetta mun vera sá fyrsti og síðasti pólitíski áróður inni á þessari síðu

Nýr mánuður.

Ný áskorun.

Í þessum fallega október mánuði hef ég ákveðið að áskorunin sé sú að skrifa eitthvað á hverjum degi. Þarf ekki að vera mikið, svo lengi sem ég skrifa eitthvað á hverjum einasta degi.

Nei það er ekki nóg að skrifa einhverjum eitthvað á facebook.

Þetta blogg er til dæmis skrif dagsins. Þetta snýst aðalega um að neyða mig í að skrifa eitthvað á hverju kvöldi og sjá hvað kemur úr því. Kannski kemur heil skáldsaga. Það væri rosalegt. Kannski kemur manifesto um eyðileggingu Bretlands. Ég veit það ekki, það er allt hægt í þessu.

En þangað til næst

xoxo

Next
Next

42,2 kílómetrar af helvíti