42,2 kílómetrar af helvíti

Núna eru nokkrir dagar liðnir frá því að ég kláraði mitt fyrsta maraþon og það eru þrír hlutir sem mig langar að deila með ykkur, sem ég hef lært síðustu daga eftir maraþon.

1.     Herra Hnetusmjör borðar bara steik

2.     Herra Hnetusmjör borðar bara sushi

3.     Ég ætla aldrei aftur að hlaupa maraþon.

Byrjunin

Kvíði, spenningur og svitalykt var það sem ég upplifði á Sóleyjargötu við upphaf hlaupsins. Ekki nema 42,2 kílómetrar eftir. Hemmi frændi snýr sér að mér og segir „ég trúi ekki að það sé komið að þessu.“ Þá fyrst fór ofhugsun í gang. Shit, hugsa ég. Er ég virkilega að fara að hlaupa í rúma fjóra klukkutíma. Er ég nógu tilbúinn? Er ég búinn að æfa nóg? Hversu ömurlegt verður það ef ég kemst ekki í mark. Ætti ég að pissa áður en ég fer? Hvað ef ég kúka á mig? „Stressaður?“ spyr Hemmi frændi mig. „Neeei, nei, ekkert svo“ segi ég, ekki með munnvatn eftir. Gæti ég fokking dáið?

Einar Þorsteinsson bæjarstjóri byrjar að tala og þá veit ég, núna er þetta að byrja. Bæjarstjórinn byrjar þetta með einhverri eitraðri jákvæðni um hvað allt er frábært og hvað allir standa sig vel. Hvað veit hann? En svo mætir Fríða Bjarnadóttir, fyrst allra kvenna til að hlaupa heilt maraþon á Íslandi. Sú var heppin að vera ekki brennd á báli fyrir svo brjálaða atrennu. Hver ákveður bara að vera fyrstur að hlaupa maraþon? Pælið í því hversu margir hefðu ekki hlaupið maraþon ef hún hefði bara sleppt því?

Ég ætlaði nú ekki að eyða tíma í að kenna greyið Fríðu um það að fólk sé að hlaupa maraþon en hún ræsti þetta hlaup.„Pæng Let‘s Go“ sagði hún alveg örugglega ekki en ég sagði það allavega við sjálfan mig. Mögulega sagði ég það upphátt?

Það kannski sést á þessum skrifum að ég er ekkert endilega að fara að tala fallega til maraþonhlaupara. Við skulum halda áfram, en fyrst væri kannski ekkert vitlaust að renna eldsnöggt yfir undirbúninginn.

Undirbúningurinn

Fyrir tveimur árum síðan fékk þá flugu í höfuðið að hlaupa maraþon einn daginn. Ef einhver getur ferðast aftur í tímann þá má hinn sami slá þá flugu frá mér. Það ár hljóp ég hálft maraþon. Fín byrjun. Náði mínu markmiði en var rúmliggjandi í tvær vikur eftir á. Atvinnulaus í þokkabót.

Talandi um slæmt hlaup.

En það var alveg skiljanlegt, ég var atvinnulaus með barn á leiðinni og vantaði greinilega einhverja þjáningu í líf mitt. Í dag er ég með góða vinnu, með barn og konu sem elska mig (held ég alveg örugglega) og er mjög þakklátur fyrir líf mitt. Fyrir hvern er ég að gera þetta? Málið er það að ég er að gera þetta fyrir sjálfan mig, þar sem ég er minn versti óvinur og hef alltaf verið. Sem er alveg rosalega skrítið en okei. Áfram gakk. Ákvörðun var tekin þetta árið. Hlaupa heilt maraþon. Fjöritíu og tvo komma tvo kílómetra. Afhverju ekki bara hafa þetta slétta 42?

Ég byrja að æfa og æfa. Kom mér fljótt upp í 18 kílómetra, svo 21 kílómeter. Ína mín auðvitað hoppandi af gleði að ég sé að skreppa í tveggja tíma æfingar þessa dagana. Næsta hlaup á dagskrá var 40 mínútur í zone 2 eða svæði 2 (æj þetta er svona hlaupatal) og fimm mínútur labb inn á milli. Fjögur sett. Fljótlega fór hnéið. Þrjóskan hélt áfram út hlaupið en hnéð kom ekkert aftur.

Ég hefði líklegast átt að gera hið sama.

Við það tók langt og strangt bataferli. Gat ekkert hlaupið. Ég hélt að draumurinn væri úti en enn og aftur kemur þrjóskan. Það var ekki séns að hætta við þetta. Ég setti inn á tiktok að ég væri að fara að hlaupa maraþon. Gat engan veginn hætt við núna. Ég náði einu löngu hlaupi eftir það, sem var um 27 kílómetra og hnéið var allt í lagi en ekkert frábært og ég þurfti að sætta mig við heldur slappan undirbúning.

Maraþonið

Komum okkur í hlaupið. Síðasta sem ég sagði var „Pæng Let‘s Go“, og ég held að orðið pæng eða hvort það sé skilgreint sem hljóð, sé ákveðin birtingarmynd yfir falskt sjálfstraust. Það átti allavega rosalega mikið við þarna.

Núll kílómetrar búnir, 42,2 eftir.

Allt er gott sem byrjar vel sá ég einhverstaðar, held reyndar að þetta sé raunverulega allt er gott sem endar vel, sem er töluvert betri málsháttur. Það er ekki allt gott sem byrjar vel, get ég sagt ykkur, því þetta hlaup byrjaði mjög vel. Ég og Hemmi frændi vorum saman fyrstu 3-4 kílómetrana og það var stemming, mikil stemming. Sjálfstraustið kom i mann og ég var alveg góðum 25sek á undan markmiði þannig áfram gakk. Allt að gerast.

Ekki nema 38 kílómetrar eftir.

Hemmi Frændi stingur af snemma, allt í góðu með það, ég er með plan. Ætla að halda mér við það. Seltjarnarnesið klárað og Grandinn tekur við. Sjálfstraustið fer að verða meira og meira. Hnéið smá farið að segja til sín en ekkert alvarlegt.

Tíu kílómetrar búnir og ekki nema 32 kílómetrar eftir.

Næst tekur við Sæbrautin, sem er líklegast einhver versti kafli í sögu hlaupa. Má alveg bæta úr því. Ekkert gaman að hlaupa upp Sæbrautina og svo aftur til baka. Nógu leiðinlegt að keyra Sæbrautina. Óþarfi að hlaupa hana fram og til baka. Tvö gel búin, þrjú gel búin og núna kveðjum við hálfmaraþon hlauparana. Arnar Pétursson líklegast búinn með steik OG sushi og hljóp auka tíu kílómetra þegar ég er að kveðja þá hálf maraþon hlaupara sem eru á sínum loka spretti.

Hálft maraþon búið og fjögur gel farin niður og allt er samkvæmt plani. Er ég að fara að ná þessu? Hugsa ég. Sjálfstraustið er að rífa af öll þök. Líður eins og ungum sjálfstæðismanni á kosningavöku.

Þá gerist það.

Hnéið farið. Fokk. Ekki get ég hætt núna. Ætti ég að hringja í Ínu mína og biðja hana um að sækja mig? Kíkja í pottinn og segja þetta gott. Alveg flott að hlaupa hálft maraþon. Þrjóskan segir nei. Leyfum falska sjálfstraustinu að lifa áfram.

Pæng let‘s go.

Ég þrauka í fjóra kílómetra í viðbót á sama hraða en þá er sársaukinn orðinn of mikill og ég verð að hægja á mér og sætta mig við það að ég er ekki að fara að ná þessu undir fjóra klukkutíma. Okei allt í góðu. Ekkert mál, núna er bara næsta markmið tekið við.

Komast lifandi í mark.

Ekki nema 17 kílómetrar eftir.

Elliðaárdalurinn, Bryggjuhverfið, Elliðaárdalurinn aftur. Sex gel búin og ælan komin upp. Fossvogurinn nálgast og þá gerist það sem ég átti aldrei von á. Heyrnatólin deyja. Núna þarf ég að hlaupa síðustu tíu kílómetrana án þess að hafa tónlist. Ég hef áður skrifað um að það er gjörsamlega bilað að hlaupa án þess að vera með heyrnatól. Það hefur allavega eitthvað alvarlegt gerst. Ég hef oft gert það að vana mínum, ef ég sé einhvern í ræktinni eða út að hlaupa án þess að vera með heyrnatól, að knúsa einstaklinginn. Því það er augljóst að sá einstaklingur þarf gott knús! Ég hefði þurft gott knús þarna. Eða mig langaði allavega í gott knús. Þrjátíu tveir kílómetrar er alveg gott afrek. Á ég ekki bara að hoppa á næsta hopp hjól og koma mér áleiðis þannig? Það þarf enginn að vita það.

Frekar siðlaust að planta hopp hjólum út um alla hlaupaleið.

Tíu kílómetrar eftir.

Ekki nóg með að heyrnatólin dóu þá kom einhver versti krampi sem ég hef nokkurntíman upplifað. Sársaukinn var óbærilegur. Mér leið eins og ég væri að hlaupa í sundlaug og það væri verið að stinga mig í lappirnar á sama tíma. Svo heyrði ég fólk öskra á hliðarlínunni setningar á borð við „KOMA SVO“, „ÞIÐ STANDIÐ YKKUR SVO VEL“, „ÞETTA ER ALVEG AÐ VERÐA BÚIГ.

Það sem ég heyrði var meira í þessum dúr: „HVAÐ ER AÐ ÞÉR?“ „AFHVERJU ERUÐI AÐ GERA ÞETTA?“, „AFHVERJU ERTU EKKI BARA HEIMA HJÁ ÞÉR?“.

Það var á þessum tímapunkti sem ég óskaði þess að ég byggi í kántrí lagi. Þar sem gallabuxurnar passa nákvæmlega, bjórinn er fullkomnlega kaldur, það er alltaf eitthvað fullkomið lag í útvarpinu og ég anda að mér sjávargolunni við ströndina. Maður lifandi. Það er enginn í kántrí lagi sem hugsar „ég ætla að hlaupa maraþon.“

Þetta voru síðustu tíu kílómetrarnir í þessu blessaða maraþoni. Ekkert nema sársauki og barátta við hausinn á mér. En ég skilaði mér í mark á endanum. Líklegast einhver besta tilfinning sem ég hef upplifað að þurfa ekki að hlaupa lengur, að þurfa ekki að æfa fyrir þetta hlaup lengur. Ég grét úr gleði. Tíminn var 4:31. Fjórir klukkutímar og 31 mínúta. Þrjátíu og tveimur mínútum á eftir markmiðinu en mér var alveg sama. Ég kláraði þetta hlaup. Litli sigurinn. Þetta gat ég.

Fyrsti bjórinn í 7 mánuði. Besti bjór sem ég hef fengið

Lokaorð

Að öllu gríni slepptu þá er ég ótrúlega þakklátur að hafa klárað þetta og þetta mun styrkja mig alveg heilan helling í þeim áskorunum sem eiga eftir að koma á minni lífsleið. Það þurfa ekkert allir að hlaupa maraþon en ég mæli eindregið með því að setja ykkur háleit markmið og reyna ykkar allra besta í að ná þeim. Sama hvað kemur úr því þá munuð þið aldrei sjá eftir því.

Previous
Previous

Byrjum þetta aftur

Next
Next

Jafnvægi