Jafnvægi
Nú er maí mánuður loks genginn í garð og sumarið er komið! Maður veit aldrei hvar maður hefur apríl mánuð, veðurlega séð. Á mjög erfitt með að ákveða sig, er vetur, er vor, er sumar, er haust? Það kemur alveg til að það séu fjórar árstíðir á einum degi í apríl. Þessvegna var nú gott að hugleiða í þessum mánuði, því maður á alveg til að fúnkera eftir veðri. Og ef við setjum saman veður og andlega líðan þá er apríl einn stór tilfinningarússíbani. Alveg þreytt að labba út á morgnanna og það er glampandi sól og þú skilur jakkan eftir heima en svo þegar þú ferð heim þá er allt í einu kominn snjóstormur. En í hugleiðslu þá snýst þetta allt um að finna þetta jafnvægi. Það er einmitt það sem ég hef gert í þessum mánuði. Einnig hjálpaði líka til að þurfa ekki að keyra undir hámarkshraða.
Það er margt sem hefur gengið á í apríl mánuði og ekkert hefur náð mér úr jafnvægi. Eins og þið vitið þá snýst hugleiðsla og auðvitað lífið sjálft um að finna þetta jafnvægi. Þegar ég sagði við Ínu mína að það væri tilvalið að fara að setja upp útisvæðið þar sem sumarið er nú komið en svo snjóaði korteri seinna? Varð ég brjálaður og fór í box við snjókomuna eins og hinn eðlilegi niðurbældi íslendingur? Nei, ég horfði bara út, tók djúpan andardrátt og sagði „aaaaa Ísland“ og brosti.
Jafnvægi.
Þegar ég var að fara með dóttur mína klukkan 08:00 til frænku sinnar og það var sprungið á dekkinu. Tjúllaðist ég? Barði ég í stýrið? Bað ég dóttur mína um að slaka á? Nei, ekkert nema djúpur andadráttur, hljóp inn, sótti krítar og lét barnið niður, fór úr að ofan og skipti á fjandans dekkinu. Mætti of seint á fund en allir voru á lífi.
Jafnvægi.
Margir sem hafa kallað mig andlegan leiðtoga. Bæði hér heima og annars staðar. Mér finnst það full langt gengið en svona er þetta. En ef þið spyrjið fólk að því mun það eflaust neita því, þannig ekkert vera að setja þau í þessar stöður. Trúið mér bara.
Hugleiðsla er alveg vissulega mjög undarleg pæling en í senn mjög mikilvæg. Þú ert á fullu í allan dag og ætlar svo að setjast niður og hugsa í einhverjar mínútur. Ég var að vinna með appið Flow sem var alveg fínt. Þú gast valið á milli 4 mínútur og 8 mínútur, með eða án tónlist og með eða án leiðbeinanda. Margt gott en þetta app er gert meira fyrir sýndarveruleikagleraugu, þannig ef þú átt þannig þá mæli ég hiklaust með að prófa. Þá ertu að hugleiða í íslenskri náttúru. Hugleiðsla er alveg 100% eitthvað sem ég mun innleiða inn í mitt líf. Kannski ekki alla daga. En einhverja daga.
Næsta áskorun er hins vegar ekki af verri endanum. Eða jú hún er reyndar af versta endanum. Veit ekki afhverju ég skrifaði hitt. Þetta er bara mjög slæmur endi.
Áskorunin er sú vakna 05:00 alla morgna, the 5am club eins og menn segja. Núna er 5. maí og ég er búinn að vakna 05:00 alla morgna og það hefur verið áhugavert. Mikil ró. Fyrsta morguninn leyfði ég mér að snooza til 05:30, fór á fætur, teygði smá, hugleiddi, fór í sturtu og svo beint að vinna. Næsta dag reif ég mig á fætur 05:15 (15 mínútna bæting!!) og var mættur í ræktina 06:00.
Massaður.
Í gær svaf ég vissulega yfir mig, en ég vaknaði samt 06:00. Hver sefur yfir sig til 06:00? Þetta er ekki eðlileg hegðun. Ég er ekki einu sinni að fá borga fyrir þetta. Er ekki hægt að kippa því í lag? Tek við frjálsum framlögum.
En eins og ég segi alltaf þá snýst þetta auðvitað um að finna þetta jafnvægi.
Þangað til næst
xoxo