Fyrsta Bloggfærslan

Það var þriðjudagskvöld, ég hafði verið að skrifa enn eina rannsóknarskýrsluna í Sálfræðináminu. Ég var nokkuð sáttur með lokaútkomuna en bað móður mína um að fara yfir hana eldsnöggt. Eftir nokkra klukkutíma bið var kallað á mig. Ég labba upp og sé móður mína djúpt sokkin í lestur. Ég sest niður andspænis henni og bíð. Loksins leit hún upp af skýrslunni, horfði á mig og spurði mig hvort ég væri nokkuð setningablindur. Ég get víst ekki sett setningar saman, þó ég er nokkuð viss um að fyrirbærið setningarblindur sé ekki til. Ég sat þarna alveg í sjokki yfir þessu, leit yfir blaðið, sem var nú allt í bláum penna móður minnar, og hugsaði með mér að það gæti kannski verið rétt hjá henni. En auðvitað viðurkenndi ég það ekki, eins og hver annar ungur maður og fór án þess að segja orð og lagaði það sem þurfti að laga. En nóg um það, núna hef ég ákveðið að gerast bloggari. Bloggari með setningarblindu. Ætla samt að fá að gera þetta án þess að biðja mömmu um að lesa yfir. Þar sem þetta gildir ekki til einkunnar, þá ætla ég að fá að vera setningablindur í friði. Ég er nóg mamma! Takk samt fyrir auka punktana á einkunnarspjaldinu mínu. 

Einhver kirkja hérna í Barcelona, sem enginn virðist geta klárað

Einhver kirkja hérna í Barcelona, sem enginn virðist geta klárað

Ég og Ína mín ákváðum semsagt að flytja til Barcelona á vit ævintýranna, eða allavega í ódýrari bjór. Ég er mættur hingað til þess að næla mér í eitt stykki meistargráðu í Marketing Management og Ína heldur áfram í fjarnámi í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Eftir ár verð ég með grunnnám í sálfræði og MSc í Marketing Management (vonandi) enda hefur draumur minn alltaf verið að heilaþvo fólk. En þannig er mál með vexti að við vorum svo rosalega spennt að við fórum út fullsnemma. Við vorum mætt út 16. ágúst, þrátt fyrir að skólinn minn byrjar ekkert fyrr en 13. október. Þannig núna eftir næstum því 3 vikur hérna úti og Ína mín byrjuð í skólanum þurfti ég að finna mér eitthvað að gera, svo mér liði ekki eins og atvinnulausum aumingja í fríi erlendis. Þannig eg ákvað að byrja að blogga.

Það verður ekkert mikið um „5 leiðir til þess að lifa þínu besta lífi“ eða „Ekki gleyma að setja ÞIG í fyrsta sæti“ færslur. Þetta verður mestmegnis um líf okkar Ínu hérna í Barcelona, og eflaust fleiri sögur af samskiptum mínum við móður mína í gegnum tíðina. Ef þið getið horft fram hjá setningarblindunni þá ætti þetta að vera gaman. Ég vona það allavega. Næstu vikur mun ég reyna að setja inn allt það helsta sem gerist hér í þessari fallegu borg og þið getið loksins farið að kalla mig lífstílsbloggara. 

Previous
Previous

Fyrsta vikan