Fyrsta vikan

Ferðalagið byrjað

Ferðalagið byrjað

Mánudagurinn 16. ágúst 2021 vorum við Ína mætt út til Barcelona. Meðferðis voru tvær 25kg töskur, ein 30kg taska, bakpoki, handfarangurstaska og tvenn snjóbretti. Allar töskur smekkfullar og ekki komst fyrir auka fjöður. Það tók smá tíma að finna leigubíl, þar sem við vorum íslenska parið með snjóbretti á Spáni. Í ágúst. Það voru ekki margir sem gátu tekið við okkur. Á endanum hittum við leigubílstjóra, sem reyndist vera tetrissnillingur, og hann tók við okkur og kom okkur á leiðarenda. Fyrstu nóttina eyddum við á hóteli. 

Daginn eftir fengum við íbúðina okkar afhenda. Við hittum eigandann, hann Antoni okkar, fyrir utan íbúðina. Íbúðin var á efstu hæð í 5 hæða húsi og stigagangurinn var mjög lítill og þröngur. Eins og áður nefnt, vorum við með margar töskur, margar þungar töskur. Ofurmennið, sem ég er, tók ég að sjálfsögðu töskurnar alla leið upp. Drottningin beið niðri og passaði upp á að enginn rændi töskunum. Hefði samt nú verið erfitt fyrir þessa þjófa að hlaupa í burtu með þessi töskuflykki og stórefa að einhver þurfi snjóbretti á að halda þessa dagana. En hvað veit ég? Ég er bara heilalaust kjötstykki sem flykkjast um með allan helvítis farangurinn. Eftir líkamsrækt dagsins vorum við loksins komin með íbúðina. Lítil og krúttleg studio íbúð, rúmið í forstofunni, stofan í eldhúsinu. Reyndar var klósettið í sérherbergi, sem var högg. Hefði verið gaman að kúka í eldhúsinu. En alltaf verið draumur að sofa í forstofunni.

Út að borða

Út að borða

Næst tók við túristavikan, þar sem mamma og Sólveig systir voru nú þegar mættar út. Uppáþrengjandi much? Neinei það var frábært að hafa þær hérna fyrstu vikuna. Mamma sagði nú alltaf að hún myndi koma oft út og vera lengi. Farinn að hafa miklar áhyggjur á að það hafi ekki verið grín. Ströndin, hjólatúr um borgina, sem endaði í vínsmökkun (shocker) og nóg af fínum og flottum veitingastöðum. Núna þegar ég hugsa meira út í það er nokkuð fínt að hafa mömmu, sem fátækur námsmaður þarf maður oft kortið hjá mömmu sinni til að lifa ákveðnum lífstíl og ég sem lífstílsbloggari væri bara vandræðalegt ef ég myndi í raun og veru lifa samkvæmt mínu budget-i.

Lokadagurinn var eyddur í L’illa, sem er nokkuð stór verslunarmiðstöð hérna í Barcelona, þar sem ég keypti mér ekki eina, heldur tvær sundbuxur. Veit ennþá ekki afhverju. Aldrei verið með sérlega gott peningavit, en alltaf gott að hafa valmöguleika. Nokkrum búðum seinna og rölti aftur að hóteli þeirra, var komið að kveðjustund. Eftir frábæra viku var komið að því að þær mægður þurftu að fara af meginlandinu.

Eftir viku af túrisma og bjórdrykkju, var komið að því að þroskast og átta sig á því að maður býr hér. Fyrsta skiptið sem ég flyt erlendis en sem betur fer þekkir Ína mín þessa flutninga mjög vel. Aðeins of vel kannski. Næstu vikur fara í að koma okkur úr þessari litlu, krúttlegu fjandans íbúð og finna íbúð með allavega einu svefnherbergi. Draumur minn um að sofa í forstofunni breyttist í martröð fljótlega.

Previous
Previous

Spænskunám frá helvíti, misskilningur í íbúðarleit og keppni við tímann

Next
Next

Fyrsta Bloggfærslan