Spænskunám frá helvíti, misskilningur í íbúðarleit og keppni við tímann

Ég virkilega að íhuga það að hætta í spænsku

Ég virkilega að íhuga það að hætta í spænsku

Ég er mættur út til þess að prófa nýja hluti og fyrst á dagskrá var að skrá mig í spænskunámskeið. Undanfarna mánuði fyrir flutninga var ég búinn að vera duglegur að læra á netinu og hélt ég væri kominn með einhvern grunn. Í fyrsta tímanum var það ljóst að ég kann ekki nokkurn skapaðan hlut í spænsku. Ína bjó hérna í Barcelona í tvö ár og gæti bjargað sér, en ég gæti ekki bjargað lífi mínu. Við erum fjögur í þessu námskeiði og það vill svo skemmtilega til að allir aðrir kunna spænsku ágætlega, skil nú ekkert hvað þau eru að gera í þessum tíma, nema auðvitað til að hlusta á heimska íslendinginn segja nafnið á eldgosinu. Það kann auðvitað enginn ensku á þessu námskeiði, þar á meðal kennarinn. Ég var fenginn í þennan tíma til að vera eitthvað helvítis comic relief. Það eina sem ég hef lært er „eres claro Ari, eres claro?“, sem í rauninni þýðir bara, „skiluru þetta trúður, skiluru þetta?“, spurning sem tíðkast full oft yfir tímann. Oftast svara ég nú bara nei, en eftir viku af þessu er ég farinn að segja já og sjá hvað gerist. Í þau skipti, sem ég reyni að tjá mig, heyrist í Ínu grenja úr hlátri, af því að þú veist, við búum í skókassa. Þessi hláturköst gera lítið fyrir sjálfstraustið. Þetta eru fjórir klukkutímar af svita á bakinu, en sem betur fer er þetta á netinu þannig ég get slökkt á myndavélinni þegar ég græt. 

En nóg um spænskunám helvítis, einnig höfum við Ína verið að leita af nýrri íbúð í nýju hverfi. Við erum í Raval hverfinu, sem er svona „viltu eiturlyf núna, eða á eftir“ hverfi. Væri óskandi að koma sér héðan. Við fundum frábæra íbúð í góðu hverfi, með flott eldhús og eitt svefnherbergi, matvöruverslun beint á móti okkur og juice bar á sömu byggingu. Hinsvegar, þá hélt eigandinn að við værum systkini og spurði ekki hvort við vildum ekki frekar tvö svefnherbergi. Við hlóum bara og sögðumst vera par. Hefðum náttúrlega átt að segjast vera systkini og fara svo í sleik fyrir framan hann og sýna honum hvernig við gerum þetta á Íslandi!! En nei, landið á undir högg að sækja eftir allt ruglið með Íslendingabók. Óþarfi að bæta við öðrum svörtum blett á landið. Til að gera langa sögu stutta tókum við ekki þessa íbúð.

Við höfum ekki ennþá fundið íbúð og erum að renna út af tíma og nennum eiginlega ekki að búa á götunni. Það hentar okkur bara ekki. Þó það virðist henta mörgum hérna í núverandi hverfi. Smá stress komið í mannskapinn, en við berum höfuðið hátt og erum bjartsýn, svona næstum því. Ína er kominn með astma og keypti sér astmapúst. Anda út og anda inn pústinu, eða hvernig maður segir þetta. Það heldur mér allavega gangandi.

Eres claro?!

Previous
Previous

Maður að nafni Xavier

Next
Next

Fyrsta vikan