Maður að nafni Xavier

Xavier nafnið hefur orðið okkur Ínu að miklum vonbrigðum hérna úti, tvisvar sinnum. Xavier hinn fyrsti, var maðurinn sem hélt að ég og Ína værum systkini og vildi í þokkabót fá töluvert meiri pening fyrir íbúðina, sem við ætluðum að leigja. Vitleysingur. Líklegast samt fínn maður, sem var bara að vinna vinnuna sína en ég er að skrifa þetta, ekki hann. Næst kynntumst við Xavier numero dos, sjá mig að læra spænsku eins og enginn sé morgundagurinn, ég er ótrúlegur. Xavier numero dos, var maður sem elskaði vesen og treysti engum. Nú skal ég segja ykkur söguna frá því þegar við kynntumst Xavier numero dos.

Ennþá að átta okkur á loftræstikerfinu í gömlu íbúðinni. Þessi mynd tengist nú ekkert sögunni en fannst hún fyndin og vildi láta hana fylgja með.

Ennþá að átta okkur á loftræstikerfinu í gömlu íbúðinni. Þessi mynd tengist nú ekkert sögunni en fannst hún fyndin og vildi láta hana fylgja með.

Það var þriðjudagurinn 7. september og ég og Ína vorum mætt í enn eitt opna húsið. En þarna var íbúð, sem okkur leist rosalega vel á. Tvær hæðir, nóg af geymsluplássi, rauðar innréttingar (rosa krúttlegt) og frábært baðherbergi. Einnig voru tvö svefnherbergi, sem var mikil breyting frá síðustu íbúð. Við sáum næsta árið fyrir okkur í þessari íbúð. Okkur langaði í hana. Maðurinn, sem sá um þessa íbúð, var enginn annar en Xavier numero dos. Strax fóru viðvörunarbjöllurnar að hringja. Auðvitað var það fokking Xavier, hann heldur pottþétt að við séum systkini eins og hinn Xavier. Það gat samt ekki verið, við gátum ekki lent í tveimur mönnum, sem bera sama nafn, og báðir eru ruglaðir. Við sögðumst vilja taka hana. Strax varð hann stressaður þegar við sögðumst vera nemendur. Það treystir enginn nemendum hérna á Spáni. Skiljanlegt svosem, við erum þekkt fyrir að svindla mann og annan. Xavier spurði hvort við gætum verið með ábyrgðarmann, sem væri með tekjur. Tengdó steig upp og bjargaði okkur tekjulausu smábörnunum í þessu nýja landi. Við Ína sendum öll skjöl, sem Xavier vildi og Xavier var sáttur.

Í miðjum spænskutíma daginn eftir, heyri ég öskrin í Ínu; “VIÐ FENGUM ÍBÚÐINA, VIÐ FENGUM ÍBÚÐINA”, og ég fagna. Löng leit af íbúð loksins skilað sínu. Gleymdi að sjálfsögðu að ég væri í spænskutíma á netinu og með kveikt á myndavélinni. Spænskukennarinn fagnaði bara með mér, án þess að skilja nokkurn skapaðan hlut. Við hlóum að þessu, þó sterkar líkur á að hún var að hlæja af mér en ég mun aldrei vita það. Ég er farinn að skilja smá meira í spænsku en þegar kennarinn fer að tala eins og hún sé að reyna að selja mér eitthvað á uppboði þá getum við gleymt þessu. Nóg um það, íbúðin var komin. Eða við héldum það, Xavier talaði þannig. Það var svo sannarlega ekki. Hann vildi undirskriftir, peninga, vesen, meira vesen. Við gerðum allt fyrir manninn, en hann vildi alltaf meira. Fíkill í vesen. Hann vildi rafræna undirskrift frá tengdó, vottaða af evrópusambandinu eða eitthvað álíka. Hvernig í fjandanum áttum við að redda því. Ég beið eftir því að Xavier myndi biðja okkur um að varpa upp hologram af ábyrgðarmanninum, eins og í Star Wars. Endaði á því að tengdó skrifaði undir helvítis samninginn og sendi hann með hraðpósti. Þetta var komið í hendur DHL. Við gátum ekki gert meir. Ég skulda tengdaforeldrum mínum nýra eftir allt þetta vesen. Ef það kemur að því að þeim vantar nýtt nýra, þá mun ég svara kallinu. Ég á ekki efni á miklu þessa dagana þannig nýrað verður að duga.

Mín tilraun í að vera listrænn ljósmyndari. Enn og aftur tengist þessi mynd ekkert færslunni, en ég verð að reyna að lífga aðeins upp á þetta.

Mín tilraun í að vera listrænn ljósmyndari. Enn og aftur tengist þessi mynd ekkert færslunni, en ég verð að reyna að lífga aðeins upp á þetta.

Spennufallið var mikið, taugakerfið höndlaði ekki meir. Xavier var búinn að gera út af við okkur. Næst segir hann við okkur að þetta þarf að koma föstudagsmorgun, annars þurftum við að klára þetta eftir helgi. Það gekk ekki, við vorum ennþá í kapphlaupi við tímann. Það var á þessum tímapunkti, sem ég tók aftur upp trúna og bað Stóra manninn um að redda þessu og fór og fékk mér bjór.

Dagurinn eftir var eyddur í þynnku. Muniði eftir bjórnum, sem ég nefndi hérna rétt fyrir ofan, já hann breyttist í fleiri bjóra. Þetta var svona þynnka sem maður fer og hugsar um tilgang lífsins og óendanleika alheimsins. Þið þekkið þetta. Þetta var Xavier að kenna. Rúmið var okkar besti vinur þennan dag. EN svo kom föstudagurinn og pósturinn skilaði sér á réttum tíma. Við fengum lyklana og vorum komin með nýja íbúð. Ég tók spænskupróf þennan dag og gjörsamlega rústaði því, 16 spurningar og aðeins þrjár villur. Allt var að smella saman, eða héldum það allavega. Meira um það í næstu færslu.

Þessi pistill var nú aðallega ákall á spænsku ríkisstjórnina að banna nafnið Xavier. Ég mun á næstu dögum þýða hana yfir á spænsku, þar sem ég er nú spænskusnillingur og senda hana inn. Skemmtileg staðreynd þá merkir nafnið Xavier “nýtt hús” á spænsku, sem þeir eru ekki alveg að virða.

Takk fyrir mig.

Previous
Previous

Illa tímasettur þjóðhátíðardagur

Next
Next

Spænskunám frá helvíti, misskilningur í íbúðarleit og keppni við tímann