Illa tímasettur þjóðhátíðardagur

Nú erum við skötuhjúin loksins flutt í nýja íbúð, og okkur líður vel. Krúttleg íbúð, rólegt hverfi og vel staðsett. Þó eru reyndar tveir menn alltaf í útilegu við enda götunnar, greinilega eitthvað flippaðir. Hér er samt ekki einn einasti maður að reyna að selja okkur eiturlyf. Fögnum því. Við eigum samt sem áður eftir að gera þessa íbúð að okkar og það vantar hnífapör. Ég drakk hafragrautinn fyrsta morguninn hér. Það var ákveðin lífsreynsla, sem ég stefni ekki á að upplifa aftur. Það vantar einnig fullt fleira hérna og það var aðeins einn staður, sem seldi allt. Það er að sjálfsögðu sænski risinn IKEA, sem þýddi sænskar kjötbollur. Við vorum spennt. Eina sem þvældist fyrir okkur var að IKEA var í 30 mínútna fjarlægð. Þurftum að leigja bíl og ætluðum að nýta tækifærið og kíkja í outlet, sem var einnig langt í burtu, og kaupa fullt fullt af fötum. Laugardaginn 11. september lögðum við af stað á glænýjum Volkswagen Golf. Tíu mínútur í tvö og allur pakkinn, enda í fyrsta skipti sem ég keyri í Barcelona. Aksturslagið á Spánverjum er nokkurnveginn bara hinir hæfustu lifa af. Fyrst á dagskrá var að flytja allt dótið okkar úr gömlu íbúðinni yfir í nýju íbúðina. Það er ekkert endilega auðveldara að bera allan farangurinn niður af fimmtu hæð frekar en upp. Trúið mér. Fljótlega var komið upp vandamál, sem er í raun orðið daglegt brauð hjá okkur hérna úti. Það var þjóðhátíðardagur Katalóna. Hvernig í fjandanum áttum við að vita það? Og hver heldur þjóðhátíðardag 11. september?! Þetta þýddi að ekkert var opið. Bíllinn strax farinn til fjandans, vorum einungis með hann í einn dag. Þennan dag, laugardaginn 11. september og það er líka allt lokað á sunnudögum og svo var ég farinn til Þýskalands og kem heim á já, sunnudegi. Ég neyðist til að drekka hafragrautinn. 

Ég svo ótrúlega rólegur yfir þessu öllu saman. Jákvæðni og þolinmæði

Ég svo ótrúlega rólegur yfir þessu öllu saman. Jákvæðni og þolinmæði

En jæja það var ekki hægt að velta sér of mikið upp úr þessu. Ætluðum að njóta dagsins, látum þetta ekki stoppa okkur. Við fórum heim með farangurinn og þegar ég stíg út úr bílnum, þá stíg ég á kúk. KÚK. Mannakúk líklegast. Laugardagurinn 11. september, 20 árum eftir fall tvíburaturnanna, stíg ég í kúk. Það er einhver tenging þarna á milli, ég er viss um það. Ég er farinn að sjá eftir flutningunum og ég fæ heimþrá. Kúkurinn varð mér að falli. En svo lít ég á Ínu, sem hefur ekki hætt að hlæja í góðar 15 mínútur og fer að hlæja sjálfur. Þetta blogg er að skrifa sig sjálft sagði ég. Jákvæðni. Einnig bý ég á Spáni, á svona dögum er alltaf hægt að fara á ströndina og það vildi svo til að við vorum með bíl. Bíllinn mundi sko ekki fara til fjandans. Aftur, jákvæðni. 

Þetta endaði á að vera frábær dagur, þrátt fyrir illa tímasettan þjóðhátíðardag og einhvern sauðhaus sem kúkaði á götuna. Samt frábært hverfi, ég sver það. Ég ætlaði nú ekki að láta kúkinn verða “eitt af þessum nýju hlutum” sem ég ætlaði að prófa. En ég meina, ég er á lífi. Svona næstum því.

Previous
Previous

Ferðalagið til Þýskalands

Next
Next

Maður að nafni Xavier