Ferðalagið til Þýskalands

Vekjaraklukkan hringir og hringir. Klukkan er 06:00, hvað í fjandanum er að gerast hugsa ég. Slekk á klukkunni og held áfram að dreyma um að ég sé Spiderman. Ég vakna aftur 06:05 yfir að Ína stendur upp. Ég brjálaður vill bara dreyma um að vera Spiderman fatta fljótlega að við erum að fara í flug. Hefðum átt að panta flug seinna. Köld sturta, 2-3 kaffibollar og ég er kominn í gang. Við erum á leiðinni í handboltabæinn Gummersbach í Þýskalandi að heimsækja foreldra Ínu. 

Tveimur tímum fyrir flug erum við mætt upp á flugvöll og ég ríf upp brottfararspjaldið mitt og sé að einhver galinn misskilningur hefur átt sér stað. Á brottfararspjaldinu stendur að ég sé non-priority farþegi. NON-PRIORITY, hvaða rugl er það. Þetta er ekki einu sinni semi-priority, nei þetta er blákalt non-priority. Til að bæta gráu ofan á svart þá lít ég á brottfararspjaldið hennar Ínu og sé að þar stendur með stórum stöfum PRIORITY. Ég er í molum. Ína situr í 1A á meðan ég sit í 105D eða eitthvað álíka með skítugum almúganum. Ína sötrar á kampavíni og ég fæ 1/3 af vatnsglasi og svitalykt af sessunautum. Ína fær heitt handklæði og skítkalda Coke í gleri, ég fæ skítuga tusku og diet RC cola. Þetta var einhvernveginn svona sem ég man þetta allavega. 

Kirkjan í Köln, mæli eindregið með henni. Þessi mynd er ekki uppstillt.

Kirkjan í Köln, mæli eindregið með henni. Þessi mynd er ekki uppstillt.

Við erum lent um hádegi í Þýskalandi. Enn eitt tungumálið sem ég kann ekki. En eins og við höfum lært er ég tungumálasnillingur þannig þetta ætti ekki að vera neitt mál. Ég var fljótlega sendur út í bakarí að kaupa rúnstykki og pretzel eða bretzel eins og þjóðverjinn segir þetta. Þetta ætti nú ekki að vera neitt stórmál, þar sem enskan ætti að bjarga mér með meirihlutann. Ég geng af stað, með airpodsin í eyrunum og læt orðið BRETZEL fljóta um hugann. Ég ætlaði sko ekki að klúðra þessu. Búinn að æfa mig nokkrum sinnum fyrir utan bakaríið, labba ég inn fullur sjálfstrausts og ætla að panta. Þegar ég kem að afgreiðsluborðinu gjörsamlega frýs ég og var búinn að gleyma öllu sem ég átti að panta. Stend þarna eins og vitleysingur og segi „English?“ Gat ekki einu sinni myndað setningu á ensku. Það skildi mig auðvitað enginn og í miðju paniki byrja ég bara að benda á hluti og vona það besta. Fjögur rúnstykki og eitt stykki pretzel komið í pokann og ég fer til baka. Þegar heim var komið, var þetta auðvitað ekki alveg það sem átti að kaupa en nógu nálægt því svo ég þurfti ekki að fara til baka í bakaríið þar sem tíminn stóð í stað. Ég er farinn að átta mig á því hægt og rólega að tungumálin eru ekkert endilega mín sterkasta hlið. 

Fyrsti heimaleikur Vfl-Gummersbach er næst á dagskrá og þar erum við mætt að hvetja pabba Ínu, sem er þjálfari Vfl-Gummersbach. Á miðanum er ég merktur VIP (Very Important Person), ekkert eitthvað non-priority kjaftæði. Þjóðverjinn kann greinilega að meta mína hæfileika, annað en skítaflugfélagið Ryan-Air. Frír bjór og þýskar pylsur. Þetta gæti ekki orðið betra. Jú, Gummersbach vann og höllin gjörsamlega trylltist. Þvílíka snilldin. Einnig fórum við að sjá fótbolta- og handboltaleik hjá litla bróður Ínu og þar var þetta meira um að hrúgast á boltann og vona það besta. Sigur í báðum leikjum og litli bróðir Ínu með stórleik. Ég horfði líklega á fleiri handboltaleiki þessa vikuna en ég hef horft á í gegnum ævina.

Svo sæt og fín

Svo sæt og fín

Tungumálaörðugleikar og handbolti var ekki það eina sem gekk á í þessari ferð. Ína mín fór í klippingu og fótsnyrtingu og ég fór til læknis útaf bakverkjum. Hinn fullkomni tengdasonur. Ég vona nú að tengdaforeldrar mínir fyrirgefa vesenið á mér, en þar sem tengdamóðir mín reyndi að drepa mig með sterkastu pizzu allra tíma, tel ég að við séum jöfn. Samt ekki. Ég hef líklegast átt þetta skilið. Nýrað er ennþá frátekið. Einnig fórum við mikið í ræktina og þar sem foreldrar Ínu eru í leiðinlega góðu formi, svona miðað við aldur, þá var tekið á því. Núna sit ég í flugvélinni á leiðinni heim og hræðist það að ég mun ekki geta staðið upp, því líkaminn á mér skilur ekki alveg hvað gekk á þessa vikuna. Hér verð ég fastur, stimplaður sem non-priority person, og mögulega læt lífið. 

Þrátt fyrir harðsperrur var þetta frábær ferð og erum við parið spennt fyrir komandi tímum. Þakklát fyrir gestrisni fjölskyldu Ínu og næst á dagskrá er að Freyr bróðir kemur í heimsókn og verður hér í smá tíma. Þá er nú mikilvægt að kíkja út í búð og tæma bjórhilluna áður en hann kemur. 

Nei ég segi svona. 

Previous
Previous

Heimsókn frá Íslandi og Lífstílsbreytingar

Next
Next

Illa tímasettur þjóðhátíðardagur