Marsbrjálæði

Góðan og gleðilegan 1. apríl!! Afhverju eru mánaðarheiti ekki með stórum staf? Er ég einn um það að þetta ætti að vera skrifað með stórum staf? Neita að trúa því. En nóg um það. Langt síðan síðast, þessi mánuður var frekar brjálaður. Til að rifja upp þá er ég að gera skemmtilegar (sumar mis-skemmtilegar) áskoranir í hverjum mánuði. í janúar (Janúar) labbaði ég 10.000 skref á hverjum einasta degi, sem gekk svona ótrúlega vel. Í febrúar (Febrúar) drakk ég ekkert áfengi og ekkert koffín, þrátt fyrir tilraunir til að taka mig niður þá gekk það einnig vel. Í mars (Mars, þetta passar bara miklu betur) ákvað ég að áskorunin yrði að ég mætti aldrei keyra yfir hámarkshraða. Engin skekkjumörk. Þrjátíu gata er þrjátíu gata. Einnig bætti ég við 100km hlaupi samtals í mars, svona til að halda þessu heilsutengdu. Þetta blogg mun vera töluvert meira hámarkshraða tengt, þannig endilega sækið ykkur popp og kók (eða nachos og ostasósu) og slakið á. Þetta verður ferðalag um götur höfuðborgarsvæðisins.

Hámarkshraðinn

Eins og ég nefni hér að ofan þá var ekki leyfilegt að nýta sér skekkjumörkin þegar kom að hámarkshraðanum. Ég gat ekki leyft mér þann lúxus að geta keyrt á 35 kílómetra hraða á 30 götu. Nei nei. Ef ég var á 30 götu þá keyrði ég á 30 kílómetra hraða. Ekki 31, heldur 30. Sem er alveg rosalega hægt. Reyndu að ímynda þér hvernig það er að keyra á 30, verðandi alltof seinn, með konu sem segir það sem hún hugsar í framsætinu og öskrandi barn í aftursætinu. Það er á þeim tímapunkti sem ég hugsaði oft hvers vegna er ég að þessu. Það er í raun engin ástæða, bara það að ég geti sagt við sjálfan mig „þetta gastu.“ Búinn að labba 10.000skref, búinn að sleppa koffíni og áfengi í heilan mánuð. Það er allavega eitthvað heilsutengt. Getum öll verið sammála um það að þessi hámarkshraðaáskorun er bara skrítin.

EN skrítnar ákvarðanir leiða oft til góðra svara eða að minnsta kosti góðrar spurninga. Til dæmis afhverju er hámarkshraði? En samt eru flest allir bílar sem komast auðveldlega upp í 180 kílómetra hraða. Afhverju er ekki bara settur einhverskonar stoppari á bíla svo þeir komast ekkert hraðar en 100km á klukkustund? Er ekki sett allt of mikið traust í manneskjuna með að gefa honum möguleikann á að brjóta lögin. Eða er það kannski ástæðan? Er þetta allt partur af planinu? Svo er líka hámarkshraði en svo erum við líka með akrein fyrir fólk sem vill keyra hratt? Hver kom með þá reglu? Hvernig geturu verið hataðasti maðurinn á götunni ef þú keyrir á hámarkshraða en ert á vitlausri akrein? Allt í einu er eitthvað djöfulsins e-pillu ljósapartí inn í bílnum mínum því einhver óþolinmóður meistari á BMW er í skottinu á mér. Einnig er alveg rosalegt að fara úr 60 niður í 40 á sömu götunni. Umferðin stöðvast gjörsamlega af því að ég fylgi lögunum. Ákveðið högg. Já ég er að tala um Hringbraut.

Þetta reyndi mikið á en samt sem áður fullt af ávinningum.

ávinningar þess að vera lúser sem fylgir lögum

Ég ætla að lýsa fyrir ykkur týpu af manneskju. Þið þekkið öll þessa manneskju, þið eruð jafnvel þessi manneskja, eða hafið allavega verið þessi manneskja á einhverjum tímapunkti á ykkar lífskeiði. Þetta er manneskjan á rauðu ljósi, sem er að fara á nálum og er greinilega að verða allt of sein. Þið heyrið í vélinni, greinilega hefur ekki stigið af bensíngjöfinni. Bíður eftir gula ljósinu og um leið og það kemur, gjörsamlega brunar af stað eins og hún væri í einhverri fast and furious mynd -

Þá er ég að tala um fyrstu myndina, þar sem ólöglegar keppnir og stuldur á geisladiskum var það versta, núna er einhvern veginn Dominic Torretto og hans fjölskylda orðin mannkyns eina von og trúa ekki á eðlisfræði. Vona að þessi manneskja sé ekki alveg þar.

- smá útúrdyr afsakið, en þú sérð ekkert nema skottið á bílnum og reykinn sem bílinn skilur eftir og þú hugsar, þennan sé ég nú aldrei aftur. Þú ferð af stað rólega og keyrir á þínum hámarkshraða í rólegheitum og hvern sérðu svo á næstu ljósum?

Sama bíl.

Sama bíl sem endurtekur leikinn aftur og aftur og aftur. Við endum á leiðarenda á sama tíma. Hvað græddi þessi manneskja? Ekkert nema meira stress. Hvernig væri bara að slaka aðeins á? Ímyndið ykkur ef ég myndi spretta allt sem ég geri. Ætla að sækja mér einn bolla í vinnunni og gjörsamlega bruna af stað í átt að kaffivélinni og til baka. Ég hugsa ég myndi ekkert endast mikið á vinnustaðnum ef ég gerði þetta aftur og aftur. Ætti líklegast mjög fáa vini og eflaust ætti ég ekki barn.

Að geta tamið sér að fara ekki yfir hámarkshraða þegar þú ert að flýta þér, sýnir styrk. Mikinn andlegan styrk. Þetta er allavega mantran sem ég endurtek í sífellu þegar mig langar að gefa í. Einnig er þetta mikið frelsi. Það er ástæða fyrir því að hámarkshraðinn er, þó það megi nú alveg færa rök fyrir því að það ætti að hækka hámarkshraðann á einhverjum stöðum, en ég færi bara þangað ef ég fengi borgað fyrir þetta. Þá myndi ég vitna í heimildir og það yrði alvöru rannsóknarblaðamennska sett í þetta.

Ef þú ert að verða of seinn eitthvert, þá geturu ekki stjórnað því. Þú kemst ekki hraðar en hámarkshraðinn, þú hefðir bara átt að leggja fyrr af stað. Einnig er þetta mjög gott fyrir félagskvíðinn einstakling. Þegar þú ert á 30 götu og röðin byrjar að myndast fyrir aftan þig. Þú finnur svitann leka niður bakið og ert tilbúinn að yfirgefa áskorun mánaðarins svo aðrir líki vel við þig. En sleppir því og ákveður í staðinn að sjá þetta í gegn og endurtekur möntruna og verður fljótt alveg sama. Þau fyrir aftan þig eru eflaust að upplifa sitt eigið helvíti og það er þeirra vandamál.

Vonandi elta þau þig ekki og berja þig þegar þú kemur að leiðarenda.

Dagur í lífi manns sem fylgir lögum.

Þetta ætti kannski að vera landsátak. Einhvers konar útgáfa af meistaramánuði. Allir verða að taka þátt og þá kannski róast þjóðin. Koma sér úr þessum hraða heimi, þar sem allt verður að gerast núna, allir trúa því að geta verið á tveimur stöðum á sama tíma og fólk lærir það mikilvægasta af öllu. Stundum verður maður að staldra við og njóta. Það er ástæða fyrir því að hámarkshraðinn er til staðar. Ég er að tala við þig á BMW-inum. Það deyr enginn ef þú kemst ekki fram úr mér.

Cruise Control er einnig algjörlega nauðsynlegt, hefði ekki getað þetta án þess.

100km hlaup

Má auðvitað ekki gleyma því að ég hljóp líka 100km sem er auðvitað ekki frásögufærandi en ég ætla samt að segja frá því.

Ég semsagt hljóp 100km í mars og það var mjög erfitt. Eiginlega bara miklu erfiðara en ég bjóst við þannig að ég ætla að taka því smá rólega í apríl og hef ákveðið að næsta áskorun verður að hugleiða á hverjum degi. Byrja rólega og svo verð ég orðinn sjóaður undir lok mánaðar. Held samt alveg áfram að hlaupa – er ennþá að meta það hvort ég eigi að taka maraþon í ágúst eða ekki.

Ég mun notast við flow.is til að hjálpa mér við hugleiðsluna þar sem það er til á íslensku. Sem er auðvitað frábært. En þetta verður áhugavert.

Sönnun fyrir þá sem trúa ekki. Hljóp semsagt 100,3 kílómetra. Það er þessi extra vinna sem skilur mig og meðalmanninn að.

Einhvers konar lokaorð

Svona til að vera með einhver lokaorð á þetta allt saman. Þið sem eruð að keyra 10 – 20km undir hámarkshraða, er allt í góðu hjá ykkur? Hver særði ykkur? Er ekki kominn tími á að hittast og ræða málin yfir kaffibolla? Ég er allavega að hugsa til ykkar.

Verð að hugleiða öll kvöld í apríl. Þið eruð velkomin að hugleiða með mér.

Previous
Previous

Ég er góður

Next
Next

Litlaus mánuður