Litlaus mánuður

Nú gerum við upp Febrúar

Ég setti mér markmið í þessum mánuði að drekka ekkert áfengi né koffín og þrátt fyrir sjokkið að það er koffín í fleiri drykkjum en kaffi að margir reyndu að verða mér að falli eins og að fela helvítis koffín í köku, þá tókst mér þetta. Eflaust margir sem eru ósáttir með það og vildu sjá mig falla en ég kom sá og sigraði. Eins og ég gerði með 10.000skrefin (muniði ekki alveg örugglega eftir þeim?). Áfengishlutinn í þessum mánuði var ekkert mál, því eins og ég var búinn að nefna áður, ef ég ætti erfitt með það, þá þyrfti ég eflaust að skoða mín mál. Það var koffínið sem tók mig út. Fyrstu dagarnir voru mjög erfiðir, koffínhausverkurinn er til. Lengi vel trúði ég ekki að koffínhausverkurinn væri til en nú veit ég, að eigin raun. Hann er til.

Febrúar mánuður er nú ekki þekktur fyrir að vera skemmtilegur. Það er oftast mjög kalt, það er lítið að frétta og þig langar helst að panta þér flug til Tenerife. Það er líklegast þess vegna að nánast allir sem ég vinn með, eru á leið erlendis í Mars. Annað hvort það eða að þau eru að fara í einhverja hópeflisferð án mín. Það er auðvitað líka möguleiki. Ég var ekkert uppá mitt besta í febrúar. Heldur litlaus og leiðinlegur. Ofan á leiðinlegan mánuð, ákvað ég að gera hann ennþá leiðinlegri með því að drekka ekkert koffín og ekkert áfengi. Ekki nóg með það, þá setti ég mér líka markmið um að klára 1500 armbeygjur í mánuðinum. Sem ég að sjálfsögðu kláraði. Eins og með 10.000 skrefin. Það er kannski orðið þreytt að minnast á 10.000skrefin. Mér finnst bara eins og allir elska það þegar ég nefni það. Ég er kannski orðinn meira þreyttur á að vera alltaf stanslaust að ræða þetta. Vísir reyndi að ná tali við mig en ég sagði bara nei. Núna langar mig að lifa eðlilegu lífi. Nenni ekki að vera þekktur sem gæinn sem labbaði 10.000 skref alla daga í janúar.

Nóg um mig.

Hér eru myndir af mér í mínu daglegu amstri í febrúar. Eins og þið sjáið, flest allt er litlaust. Erfitt að vera svarthvítur í heilan mánuð.

Litlaus á skrifstofunni

Svona var ég mest allan mánuð, svarthvítur á skrifstofunni.

litlaus göngutúr

Litlaus göngutúr

Brosi í gegnum tárin

Brosi í gegnum tárin

Svarthvítur kokkur

Hvað gerir maður þegar maður getur ekki drukkið áfengi eða fengið sér kaffi. Hrátt hakk. Í svarthvítu. Ennþá verra en hrátt hakk í lit.

Ég að skrifa þetta blogg í gær. Ennþá allt í svarthvítu.

Bóla á kinn

ÞAÐ KOM BÓLA. EKKERT ÁFENGI, EKKERT KOFFÍN. EN BÓLA.

Bóla á enni

SVO KOM ÖNNUR. HVERS ÞARF EINN ÁFENGISLAUS ARI AÐ GJALDA

Núna er kominn nýr mánuður, nýjar áskoranir, gleði og hamingja. Ekki lengur þessi febrúarangst í fólki. Páskarnir byrja í þessum mánuði, það er styttra í sumarið, það er farið að birta til, Ari Friðfinns má byrja að fokking drekka aftur. Það er allt sem er að gerast. En mars mánuður er ekki laus við áskoranir. Þrátt fyrir að litlausi febrúar er búinn þá mun þetta líklegast verða reiðasti mánuður sem ég mun upplifa þar sem ég setti mér markmið að keyra aldrei yfir hámarkshraða í þessum mánuði. Sem ég auðvitað geri alltaf.

Litlaus febrúar og reiður mars. Spurning um að lífga eitthvað uppá þetta í apríl.

Þetta átti fyrst að vera bara hámarkshraðaáskorunin, en ég mun líklegast ekkert keyra mikið þennan mánuð og sem hefð, verð ég að halda hreyfingu í næstu áskorunum líka, þannig ég ætla einnig að hlaupa samtals 100 kílómetra í mars. Ég verð ekki einn í því en ég fékk sessunauta mína í vinnunni að koma með mér í þessa vegferð.

Þá er ég að meina hlaupavegferðina. Það eru ekki margir sem eru spenntir fyrir hámarkshraðaáskoruninni. Spurning um að fara að skoða það aðeins @lögreglanáhöfuðborgarsvæðinu.

En fínt að taka skokkið á Kenny í hádeginu, næla sér í metra.

Ég bíð spenntur að skutla Ínu minni í vinnuna á morgnanna og erum að verða allt of sein, en núna mun 30 gata þýða 30 gata. Erum við að tala um endalok á sambandinu? Eða mun þetta aðeins styrkja það? Mun ég keyra útaf til að aðeins flýta fyrir þessum hæga dauðdaga sem 30 gata er? Hver veit? Haldið ykkur fast og bíðið spennt eftir næsta bloggi.

XOXO

Previous
Previous

Marsbrjálæði

Next
Next

Bolluboð Helvítis