Bolluboð Helvítis

13 dagar án koffíns. 13 dagar án áfengis. 663 armbeygjur og lífið er tilgangslaust. Eða allavega mjög litlaust.

Eins og glöggir lesendur vita þá reyni ég að standa við áskorun sem ég set á sjálfan mig í hverjum mánuði. Í janúar var það 10.000 skref, sem ég gjörsamlega pakkaði saman og hef í raun ekki hætt að tala um það. Ína elskar þegar ég tala um hetjugönguna mína og í raun allir í kring um mig.

“Plís segðu mér þegar þú labbaðir 10.000 skref í janúar”

- Allir

Mánuðurinn byrjaði brösulega þar sem ég hafði ekki tekið þá staðreynd það væri koffín í pepsi max með í reikninginn. Það var vissulega högg að átta sig á því. Ég hef þurft að lifa á vatni og klaka/kristall/bonaqua (hérna fer eftir því hver er tilbúinn í að sponsa mig). En þetta er auðvitað ekki neinum bjóðandi, sérstaklega ekki manni sem labbaði 10.000 skref í janúar. Hann á skilið eina ískalda pepsi max lime (enn og aftur þá get ég breytt þessu í hvað sem er, kók, sprite, mountain dew, jafnvel cherry kók).

En svo er þetta þannig, að þegar maður er að vinna að einhverju markmiði og maður er farinn að ná langt í lífinu (10.000 skrefin munið þið?) þá er folk þarna úti sem vill ekkert annað en að sjá mann falla. Þau geta reynt að koma ofan í mig áfengi á einhvern hátt eða vilja sjá mig drekka kaffi og reyna að koma kaffinu eða áfenginu í alls konar hluti. Ég fór í bolluboð um daginn sem er nú ekki frásögufærandi en ég hef aldrei verið mikill bollumaður. Þannig ég auðvitað geri það sem maður á að gera ef manni finnst eitthvað vont.

Láta alla vita af því.

Í raun aldrei að leyfa fólki að njóta sín að borða þessar bollur, sem er það eina sem skiptir máli á þessum degi. En nóg um það. Það var kaka á boðstólnum, kölluð konungsætt, sem að sjálfsögðu hentar mér fullkomnlega. Ég fæ mér þunna sneið, því auðvitað verð ég að passa línurnar, enda holdgervingur heilbrigðs lífstíls. Einnig set ég á diskinn brauð með osti. Þunn kökusneið og brauð með osti.

Ekkert eitthvað að öskra sælkeri en áfram gakk.

Brauðið gott og kakan mjög góð, ég sleiki súkkulaðið af munnvikunum og þakka fyrir mig. Fæ mér einn koffínlausan bolla og get gengið sáttur frá borði. Seinna kemur í ljós, að þessi kaka, þessi fjandans konungsætt, er að sjálfsögðu með kaffi í uppskriftinni!

Þvílíku vonbrigðin!

Þvílíku svikin!

En svona er þetta, ætli maður verði ekki að sætta sig við það að þegar maður nær langt í lífinu – voruði ekki alveg örugglega búin að heyra af 10.000 skrefunum? – þá er fólk sem vill sjá mann falla, sjá mann mistakast og gjörsamlega klúðra öllu. Ég auðvitað held ótrauður áfram og mun vinna alla sem vilja sjá mig falla, þá helst sjálfan mig.

SÁÁ byrjaði herferð til að hvetja mig áfram. Hvað hefur þú gert?

En annars vill ég minna á valentínusardaginn á morgun og vona að allir séu búin að skipuleggja það vel.

Annars segi ég bara takk fyrir mig og ég hef trú á ykkur!

Previous
Previous

Litlaus mánuður

Next
Next

Janúaruppgjör