Janúaruppgjör

Eins og glöggir lesendur hafa kannski lesið þá ákvað ég að setja mér áskorun í hverjum einasta mánuði á þessu ári. Í Janúar var það 10.000 skref á hverjum einasta degi og þetta gerði ég einungis til þess að hún Ína mín myndi ekki segja “ég sagði þér það”. Hún nefnilega benti mér á að það væri kannski sniðugara að geyma þessi skref þangað til að veðrið verður betra. En NEI sagði ég. Ákveðinn mótþrói en samt sem áður þá er það þetta mótlæti sem að drífur mig áfram. En hvað haldiði? Ætliði að ég hafi ekki bara gjörsamlega rústað þessum mánuði!! Ég labbaði 10.000skref á hverjum einasta degi í Janúar.

“Ég sagði þér það”

- Ekki Ína

Ég við Ínu næstu daga

Án alls gríns þá hefði ég ekki getað þetta án hennar. Hugsa það hefur ekkert verið skemmtilegt að vera tilbúin í kózykvöld með rauðvín og þátt og barnið loksins sofandi. En nei, kærastinn á eftir að labba 5000 skref þannig hann verður bara að koma sér út. Þannig ef þið sjáið hana þá megiði endilega kaupa handa henni pepsi max lime.

Ég mæli eindregið með fyrir alla að labba mikið. En það er vissulega óþarfi að telja skrefin sín svona. Þetta breytist bara í áráttu og verður ekkert gaman. En mjög hollt að standa upp úr stólnum í vinnunni oftar en venjulega og taka nokkur skref. En guð minn almáttugur hvað ég ætla að sitja allan febrúar.

“Bíómynd?! Ertu eitthvað rugluð? Geriru þér ekki grein fyrir því að ég á eftir að labba 4320 skref?”

- Ari Friðfinnsson, oftar en einu sinni

Talandi um febrúar. Þá er hann byrjaður og áskorun mánaðarins er ekkert áfengi og ekkert koffín. Ég er búinn með einn dag og hausverkurinn kom fljótt. Já, koffínhausverkurinn er til. Ég hef minni áhyggjur af drykkjunni - ef ég væri með áhyggjur af drykkjunni þá ætti ég að hafa áhyggjur af drykkjunni, svona ef þið vitið hvað ég meina - en það er kaffidrykkjan sem verður aðal áskorunin. Ég verð þó að viðurkenna eitt, fyrir sjálfum mér og fyrir þér. Þannig er nú það að ég drekk mest megnis kaffi, það er mín helsta koffínneysla. Ég þarf ekkert að stressa mig á að fá mér óvart collab eða nocco. Eina sem ég þarf að passa mig er að fá mér ekki óvart einn morgunbolla. Dagurinn gekk vel, fékk mér einn koffínlausan bolla og dó næstum úr þreytu og hausverk. Klukkan sló fjögur og ég fagnaði inn í mér. Ég þraukaði heilan dag.

Svo kemur helvítis kvöldmaturinn.

Við Ína mín græjuðum okkar go-to rétt, tacos. Fljótlegt og þæginlegt. Tókum smá hakk frá fyrir Aþenu og hentum í lauflétt hakk og spakk fyrir litlu prinsessuna. Eins og einhverjir hafa kannski lesið þá er ég nokkurs konar hakk og spakk connoisseur. Við erum sest við matarborðið og tacoið orðið ready. Ég tek fyrsta bitann og VÁ, öll blandan leikur við bragðlaukana. Tek mér sopa til að skola niður þessum dýrindis bita. Tek mér svo annan bita og VÁ, þessi var ennþá betri en sá síðasti.

Aþena hefur ekki ennþá snert matinn sinn þar sem hún starir á pabba sinn háma í sig taco-i og skilur í raun ekkert hvað er að gerast.

Eftir að tacoið er búið og nokkrir sopar búnir að renna niður og ég er ekkert nema þakklætið uppmálað. Þá fatta ég það. Ég er að drekka fokkings PEPSI MAX. Hvað er í pepsi max? KOFFÍN.

Máltíðin? Ónýt
Dagurinn? Ónýtur
Mánuðurinn? Ónýtur
Lífið? Í molum

En svona er þetta, enginn er fullkominn og við höldum áfram þrátt fyrir þetta gífurlega áfall. Febrúar verður litlaus og leiðinlegur mánuður. Mun eflaust brátt fara að sjá allt í svart og hvítu. Auðvitað er hlaupár þegar ég tek þessa ákvörðun. Einnig til að gera þetta ennþá litlausara þá tókum við strákarnir í vinnunni uppá því að gera 1500 armbeygjur í febrúar. Það gera um 51 á dag. Ætla samt kannski ekkert að setja pressuna á alla strákana í vinnunni. Við vorum bara tveir sem tókum þessa ákvörðun.

En áfram gakk! Ég labbaði allavega 10.000skref á dag og er ánægður með það.

Þangað til næst <3

Til að enda þetta fáiði að sjá myndir sem súmmerar upp komandi febrúarmánuð. Ég að sitja í sófanum úr mismunandi sjónarhornum að halda ekki á neinu. Ekki er ég að halda á kaffibolla? Nei ég má það ekki. Ekki er ég að halda á bjór? Má ekki. Pepsi Max? Ekki fokking séns. Á ég að drekka vatn? Það væri reyndar ekkert vitlaus hugmynd.

Previous
Previous

Bolluboð Helvítis

Next
Next

Skrítnar ákvarðanir