Skrítnar ákvarðanir
Í síðasta bloggi greindi ég frá því að ég tók þá ákvörðun um að labba 10.000 skref á hverjum einasta degi í Janúar. Einnig ætla ég að vera með einhvers konar áskoranir á sjálfan mig í öllum mánuðum á þessu ári. Núna eru liðnir 19 dagar og ég hef ekki ennþá stigið feilspor og er búinn að klára öll mín 10.000 skref á hverjum einasta degi. Ég ákvað líka að fasta í 72 tíma um daginn, það var mjög skrítin ákvörðun. Bara vatn og kaffi í 72 klukkutíma. Margir velta því kannski fyrir sér hvort að ég sé í maníu. Ég geri það allavegana. Veit ekki afhverju ég er að gera þetta en þú veist þetta er gaman og hægt að skrifa eitthvað um þetta.
Göngutúrarnir hafa verið misjafnir, sumir skemmtilegir aðrir bara alls ekki skemmtilegir og fleiri bara hreint út sagt ömurlegir. Við búum á Íslandi þannig veðrið er alls konar. Það er mjög erfitt að koma sér af stað, ekki búinn að borða í 48 tíma og það er óveður úti.
Er þetta einhvers konar sjálfseyðingarhvöt kannski?
Í einum göngutúrnum þá varð svo til að heyrnatólin urðu batteríslaus. Án tónlistar eða hlaðvarps er ég bara maður í drápshugleiðingum. Ég hef verk að vinna og ekkert kjaftæði. Þetta er þó töluvert skárra en að vera í ræktinni ekki með heyrnatól. Það jaðrar við andlegum veikindum. Ef þú sérð einhvern á hlaupabrettinu ekki með heyrnatól, skaltu snúa við. Strax. Jafnvel hringja á lögregluna.
Einhverjir hafa kannski rekið augun í ungan mann í náttbuxum að labba um götur Garðabæjar seint að kvöldi. Mögulega velt því fyrir sér hvort að sá einstaklingur væri bara á leið úr Hagkaup Garðabæ, með svartan doritos og tveggja lítra mountain dew, beint heim aftur í tölvuleik. En neinei þetta var bara strákur, sem áttaði sig á því klukkan 22:35 að hann skuldaði 5000 skref, nennti ekki að klæða sig eitthvað frekar og gekk út í náttbuxum.
Hvað er ég að gera?
En við höldum áfram! Gefumst ekki upp. Ég mun vinna hana Ínu mína. Ég mun vinna sjálfan mig. Alla leið. Hérna fáið þið myndir frá nokkrum af göngutúrum mánaðarins.
Birtingarmynd eitraðrar jákvæðni.
Síðustu dagar hafa verið auðveldari að ná þessum skrefum þar sem ég geng fram og til baka að horfa á íslenska landsliðið í handbolta á Evrópumótinu í Þýskalandi. Nú er ég mættur til Þýskalands og verð í stúkunni þegar Ísland mætir Frakklandi á morgun. Hleyp kannski inn á völlinn til að ná mér í nokkur skref.
Núna skulda ég 400 skref og ætla að labba fram og til baka þangað til ég fer sofa. Þangað til næst.
Áfram Ísland!