Annáll eða völuspá?
Hæhæhæ!!
Gleðilegt nýtt ár og allt það. Tók ákvörðun á að blogga meira og ég er mjög spenntur fyrir að skrifa og skrifa og skrifa og skrifa. Jafnvel skrifa aðeins meira. Síðasta ár einkenndist af svefnleysi og meira svefnleysi þannig mitt áramótaheit er að sofa aðeins meira. En eins og flest öll áramótaheit þá mun þetta líklegast fara í vaskinn þriðju vikuna í janúar. En aldrei að vita.
Ég ætlaði fyrst að skrifa einhvers konar annál en áttaði mig á því að það yrði helvíti leiðinlegur annáll. Eða frábær, hver veit. Kannski kemst það í sjálfsævisöguna, Meðalmennskuvolæði, sem ég mun eflaust gefa út einn daginn.
Í stað annáls ákvað ég að skrifa nokkurs konar völuspá ársins 2024. Samt ekki völuspá, en þú veist, nokkurs konar. Í hverjum mánuði ætla ég að vera áskorun á sjálfan mig sem mun endast út mánuðinn. Sumt verður skemmtilegt, margt annað verður leiðinlegt. Ég er ekki búinn að negla allt árið en komnar nokkrar hugmyndir. Núna í janúar ætla ég að labba 10.000 skref á hverjum einasta degi.
Ég er á degi 3 og er strax farinn að sjá eftir þessu
Afhverju í janúar spyrðu? Það er einfaldlega útaf því að þegar ég bar þetta undir hana Ínu mína þá hló hún og spurði hvort það væri ekki sniðugara að gera þetta í sumar, því þetta yrði ómögulegt. Inn kemur mótþróinn. Eins mikið og ég elska hana þá elska ég töluvert meira að sanna fyrir henni að hún hafi rangt fyrir sér. Sem gerist sjaldnar en ég vill viðurkenna. Ef allt fer til fjandans þá fær hún það sem hún elskar mest, að hafa rétt fyrir sér og geta sagt “ég sagði þér það.” En fyrir mig er þetta ekkert nema bensín á eldinn, olía í tankinn, einhver önnur samlíking sem er ótrúlega snjöll, af því að undir lok mánaðar, mun ég segja það sem ég elska að segja:
“Éttu skít”
- Ari Friðfinnsson að kvöldi 31. janúar 2024
Ekki mikið sem þú getur sagt eftir þetta.
Það er ekkert sem jafnast á við smá heilbrigða samkeppni innan sambands. Sumir setja spurningarmerki á heilbrigð samkeppni. Þar komum við að myllumerki ársins #staytoxic.
Ég mun skrifa um mín afrek og ekki afrek (óafrek?) og hvernig baráttan mín við 10.000 skref þennan mánuðin mun hafa áhrif á mig og sambandið. Í febrúar er ég með skráð hjá mér að taka áfengislausan mánuð, sem er nú klassískt að taka í stysta mánuði ársins. En hey það er hlaupár, þannig þetta er aðeins meiri áskorun en venjulega. Einnig mun ég bæta við í þann mánuð, haldið ykkur fast, koffínlausan mánuð.
Nú þegar ég skrifa þetta þá er ég ekkert spenntur fyrir febrúar. Kannski sef ég bara í mánuð.
Í mars er ég svo með skráð hjá mér að ég mun aldrei fara yfir hámarkshraða í heilan mánuð. Ef að lögreglan er að lesa þetta, þá hef ég aldrei farið yfir hámarkshraða. Mars mun eflaust vera mjög langur og reiður mánuður.
Ég mun mögulega opna fyrir póstlista, sem ykkur er velkomið að skrá ykkur á og einnig er ég opinn fyrir hugmyndir varðandi hvaða áskorun ég eigi að velja. Ég er með fullt af pælingum eins og til dæmis að vakna klukkan fimm alla morgna, nota tannþráð alla daga í mánuð (sem ég geri auðvitað alltaf haha).
Eins og skarpir lesendur hafa kannski áttað sig á, þá er þetta ekkert í líkingu við völuspá. Veit ekki alveg hvað ég var að pæla með það.