Áður en ég hóf störf sem markaðssnillingur þá vann ég lengi sem þjónn. Einn veturinn í menntaskóla vann ég á stað sem var því miður ekki langlífur en sérhæfði sig í skelfisk. Fínasti vinnustaður. Ég var oftast einn á vakt ásamt einum kokki, sem eldaði stundum góðan mat fyrir mig þegar það var lítið að gera. Sem var oftast. Einu sinni horfðum við saman á myndina Hitman og borðuðum nautalund. Áttum mjög góðar stundir saman. Ég spyr mig oft hvað varð um hann.

Ætli hann hugsi um þessar stundir eins og ég?

Vaktirnar voru aðra hvora helgi frá 16:00 - 01:00. Dagarnir byrjuðu alltaf eins. Ég mætti í vinnuna, fór í skyrtu og einhvers konar þjónasvuntu, til að geyma skrifblokk og penna, og byrjaði að þrífa öll borðin. Svona fyrir gestina sem aldrei komu. Venjulega komu svona einn til tveir kúnnar yfir kvöldið. Stundum fleiri, stundum færri. Þá var rómantísk stund hjá mér og kokkinum. Ef það komu fleiri, þá voru þau að leita af einhverjum öðrum stað og ég vísaði þeim til vegar. Eitt kvöldið komu erlendir kúnnar og voru að spyrja eftir kokkinum og ég sagði á minni bjagaðri ensku “Yes, the cock will be right here”.

Það eru svona hlutir sem halda mér vakandi á næturnar.

Einu sinni kom áhugaverður kúnni inn á staðinn. Ég man eins og þetta hefði gerst í gær. Hann var dökkhærður með eina ljósa strípu í hárinu og klæddur í full-kit flauel. Þetta var ekki Frímann Gunnars. Því miður.

Frímann.

Maðurinn gekk rösklega að barnum. Í smá stund hélt ég að hann ætlaði að ráðast á mig. Yrði hræðilegt að vera barinn af manni í full-kit flauel. Auðvitað alveg leiðinlegt að vera barinn af hverjum sem er. En þetta yrði extra leiðinlegt því hann var klæddur í full-kit flauel.

Sem betur fer réðst hann ekki mig. Hann stoppaði við barinn og beið í fimm sekúndur.

Fimm sekúndur er langur tími þegar þú starir á mann í full-kit flauel, með eina ljósa strípu í hárinu á sér.

Eftir þessar fimm sekúndur þá spyr hann mig hvort ég eigi appélsínu.

Áttu appélsínu?
— Full-Kit Flauel

“Appélsínu?” spyr ég. “Já appélsínu!” segir full-kit flauel. Ég bendi honum vingjarnlega á að kíkja frekar í 10-11 hérna handan við hornið og þar ættu þau mögulega appelsínur. Full-kit flauel þakkaði fyrir sig og gekk rösklega út í leit af sínum appelsínum.

Eftir þetta atvik fór í gang ferli sem ætti að vera óþarfi. Ég fór að efast um hvernig maður segir appelsína. Hef ég verið að segja þetta rangt allt mitt líf? Ég þurfti að rífa upp símann og googla hvernig maður ber fram appelsína. Maðurinn í full-kit flauel var það sannfærandi að ég googlaði hvernig á maður að segja appelsína. Algórithminn hefur farið til fjandans eftir þetta gúgl.

Afhverju gat ég ekki bara vitað það að auðvitað segir maður ekki appélsína. Er þetta ekki með þeim fyrstu orðum sem maður lærir? Gott að maður getur gúglað sig í gegnum allt saman. Líka hluti sem maður ætti að vita. Ef þetta hefði gerst fyrir tíma internetsins, þá væri ég eflaust gangandi um götur Reykjavíkur að biðja um appélsínur og bjanana.

Previous
Previous

Annáll eða völuspá?

Next
Next