Tók á mig sex vikna fæðingarorlof og á þeim tíma er lítil rútína í lífinu. Eina sem skiptir máli er hvort barnið sé að anda og hvernig kúkurinn er á litinn. Líf okkar unga parsins hefur svo sannarlega breyst og þá sérstaklega samræðurnar. “Hvernig var nóttin?” “Hvernig er kúkurinn á litinn?” “Er hún ekki alveg örugglega að anda?” “Hvar er fokking taubleyjan?” “Var ég búinn að tannbursta mig?” Sú tillaga að foreldrar eiga að sofa á meðan barnið sefur er greinilega komið frá einhverjum sem hefur aldrei átt barn. Hver í fjandanum á að horfa á barnið anda? Ótrúlegt en satt, þá andaði barnið í öll þessi skipti sem við litum á hana og hún andar enn!

En á milli þess að horfa á barnið anda, skipta á kúkableyjum, skipta um föt sjálfur, og átta sig á því hvað í fjandanum maður gerði við tímann sinn áður en maður eignaðist barn þá fylgdist ég með umhverfinu og varð einhvers konar eins manns nágrannavarsla. You are welcome. Á þeim tíma uppgötvaði ég faraldur. Einhvers konar hrina af glæpum sem enginn hefur tekið eftir. Nema ég.

Ég er núna búinn að lenda í því að það hefur verið rænt aftari rúðuþurrkunni minni í tvígang. Á báðum bílunum mínum. Tilviljun? Ég held ekki. Afhverju aftari rúðuþurrkan? Afhverju ekki fremri? Er einhver sérstakur svartur markaður fyrir aftari rúðuþurrkur? Afhverju ég? Er það eitthvað við mitt útlit og minn lífstíl sem öskrar “þessi gæi þarf aldrei að hafa áhyggur af rauðuþurrkum.” Ég er bara venjulegur fjölskyldufaðir í Garðabænum. Síðan hvenær voru rúðuþurrkur mælikvarði á velgengni? Þetta eru spurningar sem maður spyr sig eftir svona glæp.

Þrátt fyrir að þessi glæpur er ekkert endilega mikil óþægindi fyrir mig þá spyr maður sig hverjar hvatirnar eru bakvið svona glæp. Er þetta tækifærisglæpur þar sem að þjófurinn vantaði rúðuþurrku og nennti ekki að kaupa hana? Eða er þetta glæpur fæddur af örvæntingu, þar sem þjófurinn hafði ekki efni á rúðuþurrku? Eða er þessi glæpur framinn til þess að svala einhverjum þorsta og þróast svo í stærri afbrot. Þetta eru spurningar sem afbrotasálfræðingar spyrja sig, myndi ég halda. Það hefur nú enginn afbrotasálfræðingur svarað mér, þannig ég neyðist til að taka málin í eigin hendur.

Sama hversu smár glæpurinn virðist vera, eru alltaf afleiðingar. Er þess virði að kasta lífi þínu í ruslið fyrir rúðuþurrku? Ekki viltu hafa á ferilskránni þinni að þú hafir verið tekinn fyrir stuld af rúðuþurrkum?

Sama hver hvatinn á bakvið þennan glæp er þá er mikilvægt að læra af honum. Við skulum ávallt hugsa okkur tvisvar um áður en við fremjum glæp, sama hversu lítill hann er og til einstaklingsins sem stal rúðuþurrkunni; það er aldrei of seint að snúa blaðinu við!

Hér er dæmi um manneskju að stela aftari rúðuþurrku. Er þetta stærra vandamál en við höldum?

Margir sem spyrja sig eftir þennan lestur hvort ég hafi of mikinn frítíma. Eða hvort ég hafi horft á of mikið af Criminal Minds í fæðingarorlofinu.

Bæði örugglega rétt.

Samt sem áður tel ég mig vera að uppljóstra einhverju sem enginn hefur þorað að tala um. Opnum umræðuna og verum á varðbergi.

Takk fyrir mig.

Þetta er lookið sem ég er að leita eftir þegar gerð verður bíómynd um þetta mál. Miklar pælingar í gangi í rigningu.

Previous
Previous

Next
Next

Ný kynslóð af íslenskum karlmönnum