Ný kynslóð af íslenskum karlmönnum
Við Ína mín keyptum okkur nýverið íbúð beint úr kassanum og hafa því síðustu vikur verið tileinkaðar því að koma okkur fyrir.
Gerðist allt mjög hratt. Ætluðum ekkert að kaupa okkur íbúð strax. Vorum bara að skoða í rólegheitum en svo á þriðja opna húsinu, sem við fórum í, lentum við á einhverju skemmtilegu og við settum inn tilboð á mánudegi og fengum allt samþykkt á þriðjudegi og flutt inn á miðvikudegi.
Neinei auðvitað er ég að ýkja á tímasetningum en hvað vitið þið. Gæti alveg eins hafa gerst svona.
Þetta var keypt beint úr kassanum og afhent án gólfefna þannig þá er hún Ína mín heppin að vera með þeim mikla iðnaðarmanni sem Ari Friðfinnsson er.
Áður en iðnaðurinn hófst þurfti samt að velja húsgögn. Og hér fyrir neðan má sjá sætu fínu Ínu mína að máta þau nokkur.
Muniði þegar ég skrifaði að Ína væri heppinn að vera með þeim iðnaðarmanni sem ég er.
Ég var að ljúga. Fyrirgefið.
Ég er partur af þeirri kynslóð sem hefur ekki þurft að vinna fyrir neinu í lífinu sínu. Ég kenni foreldrum mínum auðvitað um það. Ég bauð einu sinni vinum mínum í bakaríið á Húsavík og eftir að við vorum búnir að borða þá hringdi ég bara í pabba til þess að koma og borga. Eins og ekkert væri eðlilegra.
Hvað í Kardashian var það?
Ég reyndi þó að bjóða fram hjálp mína. Ég byrjaði að skrapa upp af gólfinu til þess að undirbúa parketlögn og mér tókst að rífa upp höndina á mér. Hughreysti mig þó að eftir að þetta grær mun ég vera með sigg á höndunum eins og alíslenskur iðnaðarmaður. Hringdi í tengdapabba minn og ætlaði nú að monta mig á þessum nýju höndum og tala um að þetta væri auðvitað bara partur af því að vera íslenskur karlmaður.
Um leið og ég sleppti orðinu áttaði ég mig á því að það væri self-care sunday og ég var í slopp, með andlitsmaska og með malt og appelsín í fínu glasi.
Í fínu glasi.
Afhverju var ég ekki bara með síðan tuborg? Hefði getað bætt upp fyrir andlitsmaskann.
Ég þurfti að vera með malt og appelsín í fínu glasi.
“Ég er ný kynslóð af íslenskum karlmönnum”
-Segi ég og reyni að bjarga því sem hægt var að bjarga.
Í öllu þessu ferli var ég meira fyrir en ekki. Afi hennar Ínu sá um flest allt sem tengdist því að gera eitthvað í þessari íbúð og er ég ævinlega þakklátur honum. Hann þóttist auðvitað þurfa mína hjálp. Ég stóð oftast aðeins of nálægt og reyndi að þykjast vita eitthvað.
Í eitt skiptið bað hann mig um að halda ryksugunni uppi á meðan hann boraði í loftið. Ég tek auðvitað öllum hlutverkum mjög alvarlega og hélt að þarna myndi ég næla mér í nokkur iðnaðarstig. Ég næ í ryksuguna, toga út snúruna, tek hausinn af og sting í samband. Allt að gerast. Var tilbúinn á undan Afa Ínu. Iðnaðarstigin eru að detta í hús. Ég stend þarna með tvo metra á milli lappa og lyfti upp ryksugunni. Ég er tilbúinn. Afi hennar Ínu er tilbúinn. En ekkert gerist. Engin bor, ekki neitt. Ég hugsa að hann sé búinn að klúðra einhverju. Hann lítur á mig, núna segir hann að hann hafi gert mistök hugsa ég. “Ari minn, það þarf að kveikja á ryksugunni”
Fokk.
Iðnaðarstigin eru fokin út. Ég kveiki á helvítis ryksugunni og við tölum ekki um þetta aftur.
Einnig má ekki gleyma frænda hennar Ínu, sem sá um að leggja parketið. Hann þóttist ekkert þurfa mína hjálp og vissi alveg hversu gagnslaus ég væri. Hann bað mig bara vinsamlegast um að fara heim og gera það sem ég geri best. Auðvitað þurfti ég að kyngja stoltinu þarna en sem betur fer var sunnudagur. Ég fór heim og gerði það sem ég geri best. Setti á mig andlitsmaska, fór í sloppinn og fékk mér malt og appelsín í fínu glasi.