Hakk og Spakk Connoisseur

Hakk og spakk í matinn, pepsi max lime komin á borðið og Dexter kominn í sjónvarpið. Mmmm hvað lífið er gott.

Gaman að segja frá því að ég eldaði þetta hakk og spakk alveg sjálfur, þar sem Ína er í prófum og hefur ekki tíma fyrir mig, þá sá ég um matinn og það gekk svo glimrandi vel. Tíu af tíu segir Ína. Bragðið gott en eldhúsið fékk því miður að finna fyrir því. En eins og ég sé þetta, þá er þetta ekkert nema passion fyrir matargerðinni.

Með sósu út um allan munn og á bolnum mínum, sýg ég inn síðasta spaghettíið og geng sáttur frá borði. Skildi smekkinn eftir heima þar sem ég hélt að ég gæti þroskast og borðað með munninum í nýju landi. En svo var ekki.

Eftir matinn fer Ína aftur að læra og skilur mig eftir í mínum eigin sóðaskap og þá datt mér í hug að það væri kominn tími til að skrifa nýja færslu. Langt síðan síðast og það hefur verið nóg um að vera síðustu mánuði.

Tíu af tíu

- Dagbjört Ína Guðjónsdóttir um hið ótrúlega hakk og spaghettí eldað af engum öðrum en Ara Friðfinns, hakk og spakk connoisseur.

Fyrsti skóladagurinn var áhugaverður. Ég klæddi mig í mín fínustu klæði og hjólaði í skólann (heilbrigði). Allan tímann á leiðinni hugsaði ég með mér að ég yrði pottþétt brókaður og læstur inn í skáp. Fljótlega átta ég mig á að ég sé ekki staddur í bandarískri háskólamynd.

Var tilbúinn að þetta yrði heimilið mitt næsta árið

Þegar ég mætti í skólann, sá ég að þarna voru einungis Frakkar. Frábært. Þetta er frönsk háskólamynd. Veit ekki alveg hvað er gert þar, en það er 100% ekki í lit. En þegar leið á daginn sá ég að það var auðvitað eitthvað um önnur þjóðerni þarna líka, Hollendingar, Þjóðverjar, Ítalar, einn strákur frá Póllandi og annar frá Lebanon. Í mínum hóp voru hinsvegar bara Frakkar og einn Þjóðverji. Jákvæði maðurinn, sem ég er, hugsaði auðvitað strax hversu frábært þetta væri. Tvö skemmtilegustu þjóðerni heimsins. Í þokkabót tala Frakkarnir ekki ensku. Í enskumælandi skóla, þá tala þau ekki ensku. Nema einn, en hann er aðallega notaður til að þýða fyrir Frakkana og öfugt. Virkilega hressandi.

Fyrsti skóladagurinn gekk nokkuð vel, ég var allavega ekki brókaður, né læstur inn í skáp. Tel það vera sigur.

Litlu hlutirnir.

Eftir nokkra daga í skólanum áttaði ég mig á því hversu lélegur fulltrúi ég er fyrir íslensku þjóðina hérna úti. Ég veit furðulega lítið um mitt eigið land. Á þeim tíma er ég mjög þakklátur fyrir eldgosið. Þannig ef þið mætið einhverjum túristum, sem halda að Ísland sé eitt stórt spúandi eldfjall, þá er það líklegast mér að þakka.

Yesyes we are a small country but we have big hearts yes. We also are used to active volcanos. I just look out my window and see a volcano. It is crazy.

- Ég alltaf

Fljótlega eftir að ég byrjaði í skólanum bilaði þvottavélin okkar Ínu. Við sendum strax á eiganda íbúðarinnar um að koma og skoða þetta. Ég kem á mánudaginn sagði hann. Frábært, hugsum við, við getum þraukað yfir helgina. Eða á miðvikudaginn, var næsta svar, þar sem þriðjudagurinn var heilagur frídagur (1 af 12.000 á árinu hérna í Barcelona). Íslenska blóðið í okkur vildi auðvitað fá þjónustu strax í dag, en við skildum að við værum í nýrri menningu og kyngdum íslenska stoltinu og sögðumst hlakka til að sjá hann. Hann kom viku seinna, leit á þetta og sagði að hann gæti ekkert gert og þyrfti að fá viðgerðarmenn til að koma. Önnur vika leið.

Ína stóð sig eins og hetja í öllum þessum þvottalausu dögum. Ég sat á skólabekk og gat lítið gert, þannig hún magnaða Ína mín ræddi við þessa viðgerðarmenn, sem skildu enga ensku og reifst við eigandann, sem vildi rukka okkur fyrir að eyðileggja vélina hans. Spánverjar hafa greinilega ekki heyrt um endingartíma þvottavéla þar sem þessi var 14 ára gömul og var nú handónýt þegar við fengum hana. Ína var farin að þvo þvottinn í vaskinum eins og húsmóðir af gamla skólanum. Á meðan sat ég á skólabekk, boraði í nefið og lærði um EBITDA. Gjörsamlega gagnslaus.

Veit ekki ennþá hvað EBITDA er.

Eftir rúmlega fjórar vikur fengum við loksins nýja vél og þurftum ekki að borga neitt. Skál fyrir því.

Ef ég myndi neyðast til að lýsa síðustu mánuðum í nokkrum orðum yrði það, lærdómur og ódýrt rauðvín. Mikil hjálp að rauðvínið er ódýrt hérna.

Talandi um rauðvín, þá ætla ég að fylla á glasið mitt. Þyrfti helst að fylla á glasið hjá Ínu líka. Hún hefur ekki verið svakalega ánægð með mig eftir að ég kláraði síðasta þristinn, sem hún fékk sent frá Íslandi. Skil hana mjög vel, ég væri líka brjálaður ef hún hefði klárað þetta.

En ég meina, einhver þurfti að klára þetta. Betra ég en hún.

Þríf kannski eldhúsið í leiðinni.

Takk fyrir mig.

Previous
Previous

Grasið ER grænna hinum megin

Next
Next

Holdgervingur Heilbrigðs Lífstíls