Grasið ER grænna hinum megin
Ég var atvinnulaus, einhver frægur pottþétt nýbúinn að deyja, í kringum 25 rauðar viðvaranir og maður fékk eldgamla hálftímann af dagsbirtu. Svona var Janúarmánuður í fyrra hjá mér og var ekkert skárri árið áður. Þessi janúarmánuður einkenndist af birtu, grænu grasi og ódýru kaffi. Ég get alveg sagt ykkur það, að grasið er töluvert grænna hér í Barcelona en á Íslandi. Sama hvað aðrir segja.
Ég er vissulega ennþá atvinnulaus, en ég er atvinnulaus í góðu veðri. Það er mikill munur þar á milli.
Ég segi mér það allavega.
EN já það er nóg búið að gerast síðan ég skrifaði síðast. Fjölskyldan kom til Barcelona og við fórum í skíðaferð til Andorra yfir jólin, magnað hvað ég hef ekki gleymt neinu. Ég og snjóbrettið erum eitt. Hún Ína mín ekki alveg eins hæfileikarík eins og ég þegar kemur að snjóbrettum.
Konan ákvað að týnast fyrsta daginn.
Þegar ég loksins áttaði mig á að hún hefði farið ranga leið, þá reif ég mig úr snjóbrettinu og hljóp upp brekkuna eins og atvinnumaður. Hoppaði aftur á snjóbrettið í einni hreyfingu. BOOM, CLICK, LET’S GO. Brunaði niður fjallið eins og ég væri að keppast um ólympíusæti, tók öll gos-trikkin, pepsi max, fanta og allt það. Ég var ótrúlegur, enda með margra ára reynslu í SSX tricky tölvuleiknum, sem ég og Patrekur vinur minn leigðum hverja helgi. Já leigðum.
Einhverjar 2000 kalóríur fóru í að leita af Ínu minni og eftir rúmlegar 30 mínútur fann ég hana neðst í fjallinu…. á barnum.
Jæja, hún var allavega á lífi. Fögnum því.
Þetta var frábær ferð, yndislegt að fá fjölskylduna í heimsókn. Mæli með að kíkja til Androrra á skíði og hún Ína mín stóð sig eins og hetja restina af ferðinni!
Hér fyrir neðan er mynd, sem ég tók.
Ekki bara frábær á snjóbretti heldur einnig magnaður ljósmyndari.
Við kvöddum elsku fjölskyldu mína stutt eftir jól, þar sem þau héldu heim til Íslands til að fagna áramótum. Núna spyrja margir sig eflaust, “en bíddu, afhverju eruð þið ekki að fara til Íslands yfir áramótin?” Já, það er þannig með okkur ríka og fræga fólkið að við erum ekkert mikið á Íslandi yfir jólin.
Við skelltum okkur til Tenerife.
Ákveðið högg að 50% af íslensku þjóðinni ákvað að gera það líka, en þau fóru ekki líka í skíðaferð.
Við Ína mín ákváðum að skella okkur til Tenerife til að vera með fjölskyldu hennar í þetta skiptið. Mikilvægt að taka góða núllstillingu eftir skíðaferð. Mikið stuð mikið gaman. Ég ákvað þó að næla mér í einhvern vírus, hvort það var Covid eða ekki, en ég var meira og minna uppá herbergi með ælupest OG niðurgang. Mjög sexy ég veit. Ég náði mér þó á endanum og naut síðustu dagana á nýju ári með frábærum félagsskap.
Svo ég sé ekki einungis að skjóta á Ínu mína, eins og hér að ofan. Þá verð ég að hrósa henni fyrir þann dugnað, sem hún sýndi á Tenerife. Hún kláraði sína fyrstu skáldsögu. Las sína fyrstu skáldsögu, svo það sé á hreinu. Það var bókin Úti eftir Ragnar Jónasson, sem fékk þann heiður að vera lesin af Ínu. Næst á dagskrá var að byrja á Arnaldi eða Yrsu, en það var of mikill texti. Þannig já, við bíðum bara eftir næstu jólum.
Næst á dagskrá var EM í handbolta. Holy shit hvað það var skemmtilegt. Ég breyttist í hina alverstu handboltabullu við að horfa á þessa leiki. Ég hoppaði, öskraði á sjónvarpið, drakk alltof mikinn bjór, rakaði af mér hárið og kýldi vegg. Hefði líklegast drepið mann ef Ísland hefði komist lengra.
Veit ekki hvort Ínu fannst þetta eins gaman og mér en VÁ hvað þetta var gaman.
Annars hefur allt verið frábært og lífið er yndislegt hérna í Barcelona. Veðrið frábært, maturinn góður og kaffið mjög gott.
Takk fyrir lesturinn og njótið lífsins.
XOXO