ÚHNTS ÚHNTS í Barcelona

Ég og Ína mín sátum í rólegheitum síðasta laugardagskvöld að horfa á fjórða Ellen DeGeneres myndbandið á youtube með Kevin Hart eða eitthvað álíka. Ekki nóg með það þá vorum við einnig að sötra á rauðvíni og vorum næstum því búin með eina heila flösku. Ekki hálfa, heldur heila. Já, ekki allir sem lifa jafn spennandi lífi og við.

Ég var eflaust ný búinn að grenja úr hlátri yfir einhverju sem hann Kevin sagði við Ellen, svo góð vinátta þarna á milli, þegar hún Ína mín sleikti síðustu dropana úr flöskunni og hendir í þau fleygu orð “Er ekki kominn tími á að við förum að djamma?” Ég velti þessu fyrir mér og var efins, leið vel með Ellen og Kevin. Gætum alveg slegið þessu upp í kæruleysi, opnað aðra flösku og tekið samblöndu af öllum skiptunum sem Ellen er að bregða gestunum sínum. Hilarious.

Svo veltum við því fyrir okkur hvort það væri nokkuð sniðugt að vera að fara svona seint út, þar sem að morgundagurinn yrði bara eyðilagður. Einnig er þetta svo langt ferðalag fyrir smá “úhnts-úhnts”.

Hvenær í fjandanum urðum við miðaldra par með þrjú börn og látum okkur nægja 2-3 rauðvínsglös og sofnum snemma til að eiga allan daginn. Hvar er allt rokk og ról?

Við þessa uppgötvun stóðum við upp, fengum okkur espresso (erum ekki 18 ára lengur) og fórum í okkar fínastu klæði, ég henti geli í hárið mitt, fór í níðþröngar gallabuxur og splæsti í gallajakka. Ekki einu sinni smá að grínast. Hún Ína mín nú alltaf jafn falleg en hún dró upp djammgallann aftast í skápnum og henti einhverju í andlitið á sér. Rakspíri og ilmvatn og við vorum tilbúin í brottför.

Ferðalagið var rúmlega 30 mínútur í lest og eftir um það bil 15 mínútur var rauðvínið farið að renna af okkur og við sáum fljótlega eftir þessari ákvörðun. Bæði farin að geispa. Koma svo, rokk og ról manstu?! Stórefa það að meðlimir Mötley Crüe hafi einhverntíman geispað á leið á klúbbinn. Rokk og ról.

“Rokk og Ról Ína, koma svo!!”

Mætt á klúbbinn.

“HA?!”

“VIÐ ERUM MÆTT Á KLÚBBINN!”

Já, við parið mætt að úhntsa í Barcelona. Þetta var fínasta stemming - Candy Club með 50 cent í bland við e-pillu tónlist er eitthvað sem við verðum að læra að meta betur. Drykkirnir vissulega allt of dýrir. Veit ekki hver leyfði því að gerast að selja lítinn Heineken bjór á 10 evrur. Erum svosem vön því. Ég fékk mér Gin&Tonic, því að ég er töffari. Sá fljótlega eftir því þegar posinn var í andlitinu á mér.

Rokk og Ról.

Eftir rúmlega tvo klukktíma af óþæginlegu úhntsi í horninu á klúbbnum ákváðum við að það væri best að fara heim.

Enduðum kvöldið á frosnum pizzum upp í rúmi og smá Ellen til að klára kvöldið.

Rokk og Ról.

Þetta var einhvern vegin svona þegar við vorum að borða pizzuna

Ekki alveg svona óþæginlegt samt


Annars gengur ótrúlega vel í skólanum. Bekkjarfélaginn minn mætti seint í skólann um daginn og baðst afsökunar á því þegar hann haltraði inn í stofuna, haldandi á RedBull dós. Kennarinn spurði hvar hann hefði verið og ég svaraði á undan að hann hafi raunverulega haldið að RedBull veitir manni vængi og látið á það reyna.

Að sjálfsögðu grenjuðu allir úr hlátri, kennarinn datt úr stólnum, bekkjarfélaginn sullaði Redbull drykknum og ég var sendur heim fyrir að vera aðeins OF fyndinn.

Annars er ég að leita mér að vinnu, þannig ef ykkur vantar starfsmann þá yrði þetta stemmingin sem ég myndi mæta með.

Takk og bless.

XOXO

Previous
Previous

Dvínandi Hamingja á Dollunni

Next
Next

Grasið ER grænna hinum megin