Dvínandi Hamingja á Dollunni

Ég man eins og þetta hafi gerst í gær. Þvílíkur hryllingur.

Dagurinn byrjaði mjög vel, ég vaknaði snemma þennan morgun því mig langaði til að grípa daginn strax. Ég kom mér fram úr, teygði úr mér, drakk vatn og fékk mér vítamín. Klæddi mig strax í ræktarfötin og rölti í ræktina.

Haldiði nokkuð að ég hafi gleymt því að ég sé holdgervingur heilbrigðs lífstíls? Þetta er lífstíll. Halló!

Nóg um það, ég tók allavega mjög vel á því og kom heim, sáttur með dagsbyrjunina. Fór í góða sturtu og endaði á 30 sekúndna kaldri sturtu, því Nökkvi Fjalar sagði í einhverjum skilaboðum að það væri geggjað. Beint eftir sturtu græjaði ég morgunmat fyrir mig og Ínu. Grískt jógurt, bláber, jarðaber, múslí og svo smá Agave yfir. Himneskt. Einnig lagaði ég te fyrir hana Ínu mína því hún hafði verið smá slöpp síðustu daga. Heimagert með sítrónu, engiferi og smá kanil yfir. Fór inn í herbergi og vakti Ínu mína með koss á enni og lagði te-ið og morgunmatin á náttborðið.

Ég er ekki að segja að ég sé betri en þið, en ég meina..

Allavega, þetta byrjaði sem hinn besti dagur. Allt að smella saman. Eftir morgunmatinn var komið að fyrsta bolla dagsins. Fyrir valinu varð [Insert Auglýsing] og VÁ, ef þetta var ekki einhver besti kaffibolli sem ég hef smakkað á ævi minni. Það eina sem er betra en fyrsti bolli dagsins, er það sem fylgir. Morgunskitan.

Ég tek oftast minn tíma á klósettinu að renna í gegnum samfélagsmiðlana og sjá hvers konar óskunda vinir mínir á Íslandi voru að gera kvöldinu áður. Hún Ína mín er nú oftast mjög ánægð með það hversu lengi ég er á klósettinu.

Þennan morguninn ákvað ég þó að gera þau mistök að kíkja á heimabankann, því það var nú kominn tími til að borga kreditkortareikninginn. Ætti nú að vera minnsta mál, hef gert það áður. En neinei, að auki 100.000 króna kreditkortareiknings þá beið mín rukkun frá skattinum upp á 300.000 krónur. Þrjú hundruð ÞÚSUND krónur. Dagurinn, sem byrjaði svo vel, ónýtur. Klósettferðin gjörsamlega ónýt. Man ekki hvort ég hafi skeint mér, ég fór í smá blackout þarna. Næsta sem ég man var ég að hringja grátandi í lögfræðinginn minn (mömmu). Lögfræðingurinn hringdi rakleiðis í endurskoðandann minn (ömmu) til að fá einhverja útskýringu á þessu. Til að gera langa sögu stutta, þá þurfti ég að borga þetta strax. Skatturinn gerir aldrei mistök!

Vandamálið við þetta var að ég á ekkert þennan pening. Ég gat ekkert borgað þetta. Ég þurfti bara að útskýra fyrir henni Ínu minni að þegar við komum heim til Íslands yrði ég líklegast handtekinn fyrir skattasvik og þyrfti að dúsa í fangaklefa í smá stund og vona að hún myndi bíða eftir mér.

Greyið konan hjá ríkisskattstjóra sem lenti í mér sagði mér nú, í töluvert rólegri nótum en ég var, að ég gæti nú borgað þetta allt saman í raðgreiðslum og þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Þvílíkur léttir. Gegnum tíðina hef ég vanið mig á að lifa ákveðnum lífstíl, sem ég hef ekkert endilega efni á. Þetta hefði gjörsamlega rústað mér. Ég hefði þurft að klára ostinn algjörlega en ekki henda ógeðslega stykkinu sem er alltaf eftir í lokin. Það sama á við um helvítis endann á brauðinu. Ég hefði þurft að segja upp Disney+, Prime Video, HBO Max, Hulu og AppleTV+. Myndi halda áfram með Netflix þar sem móðir mín borgar fyrir þann aðgang. Myndi mögulega bjarga mér, en þetta hefði getað orðið algjör martröð.

Núna er það bara að anda rólega og halda áfram að skrifa lokaritgerðina mína. Gott að geta sett þetta fíaskó í baksýnisspegilinn.

Lengi lifi raðgreiðslur!

xoxo

Previous
Previous

Óþolinmóðir Íslendingar og Óumbeðin Jákvæðni

Next
Next

ÚHNTS ÚHNTS í Barcelona