Óþolinmóðir Íslendingar og Óumbeðin Jákvæðni

Jæja. Þá erum við komin heim og búin að vera á Íslandi í rúmlega 3 mánuði og mig langar strax aftur út. Neinei, ekkert endilega strax en mjög fljótlega.

Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert verið að skrifa upp á síðkastið er vegna þess að ég hef verið upptekinn að bjarga fornu Grikklandi frá óskaplega vanhæfri ríkistjórn og einstaka sinnum yfirnáttúrulegum verum í hinum margverðlauna tölvuleik Assassins Creed.

Forgangsröðun.

Annars mæli ég eindregið með að prófa að búa í Barcelona í smá tíma. Eða bara einhverstaðar á Spáni. Hefur mjög róandi áhrif á óþolinmóða Íslendinga, þar sem þjónustulund er lítil sem engin á Spáni. Mottóið þeirra er oftast “ég græja þessa pöntun þegar mig fokking langar til þess.”

Ekkert mál, fyrirgefðu að ég spurði. Ég er bara búinn að bíða í 10 mínútur eftir edamame baunum og tveimur mango mojito mínus mango

- Íslendingurinn í mér

Snemma í ferðinni vorum við Ína mín á bar og pöntuðum okkur drykki. Ekki flókin pöntun. Ekki með sér íslenska pöntun, mínus þetta og plús hitt. Bara tveir venjulegir drykkir eins og þeir eru kynntir á blaði.

Einn barþjónn og troðfullur staðurinn.

Ég myndi fá kvíðakast og fara í kulnun á staðnum. En barþjóninn tók þessari pöntun og setti hana í röð með hinum og gerði einn drykk í einu. Fór meirað segja út í sígó í millitíðinni. Það kippti sér enginn upp við þetta, allir sátu bara á sínum stað og ræddu málin og biðu í rólegheitum. Á meðan við óþolinmóðu Íslendingarnir sátum á iði og vildum fá drykkina okkar áðan.

Ekki núna. Ekki á eftir. Áðan.

Við enduðum auðvitað bara á því að fá drykkina okkar og það var ekki eitthvað “afsakið biðina, þið fáið þessa frítt” það var bara rétt okkur drykkina og farið í næstu pöntun.

Fyrsta menningarsjokkið komið.

Þessi mynd tengist þessu bloggi ekki neitt. En ég hljóp hálfmaraþon núna í ágúst og vildi reyna að troða því inn.

Seinna menningarsjokkið kom þegar við ætluðum að segja upp netinu áður en við flytjum heim. Vorum hjá Vodafone og héldum að þjónustan væri eins í öllum löndum en svo er alls ekki. Korter fyrir brottför þá mætum við með routerinn og ætlum að skila honum og segja upp þjónustunni. En nei, það er víst ekki þannig sem Spánverjinn gerir þetta.

Fyrst þarf að hringja í númer til þess að fá einhvern kóða. Það er ekki hægt að hringja í þetta númer ef þú ert ekki með símann hjá Vodafone. Sem við vorum ekki.

Starfsmaðurinn ætlaði ekkert að hjálpa okkur meir. Hann hélt bara að hans verki væri lokið, við þurftum bara að skrá okkur í Vodafone til þess að geta skilað þessum router. En þarna kreistum við fram Íslendinginn í okkur og létum hann heyra það. Fengum að hringja úr hans símanúmeri og létum vita að við ætluðum að segja upp áskrift. Það kostaði auðvitað virkilega mikinn pening og ekki nóg með það, þá myndum við fá kóðann eftir viku.

Eftir viku!

Við vorum að fara úr landinu. Gátum ekkert gert. Þar fór inn “computer says no” mórallinn yfir Vodafone. Þannig að þessi blessaði router lenti í ruslinu og við lokuðum kortinu.

Þannig það eru einhverjar líkur á því að ef við förum aftur til Barcelona þá verðum við handtekin fyrir ógreidda Vodafone reikninga.

En það er bara vandamál framtíðarinnar.

Annars var allt frábært, getið rennt í gegnum allt bloggið og séð hversu gjörsamlega frábært þetta var. Til dæmis þá fór síðasta blogg fór yfir vandamál mín með skattinn ásamt vangaveltum yfir því hvort ég hafi skeint mér eða ekki.

Blessunarlega gekk allt upp með skattinn og ég er 70% viss um að ég hafi skeint mér.

Kannski svona 65%


Annars eru stóru fréttirnar þær að hún Ína mín er ólétt og við eigum von á barni núna í desember og erum alveg ótrúlega spennt yfir því.

Morguninn 9. Apríl 2021 var ég vakinn 05:15 í Þýskalandi.

Engar áhyggjur ég vissi alveg að ég væri í Þýskalandi, þetta er ekki ein svona „shit hvað gerðist í gær“ saga.

En 05:15 var það. Óléttuprik. Jákvætt. Sjokk. Hún Dagbjört Ína Guðjónsdóttir er ólett. Ari Friðfinnsson er að fara að verða faðir. PABBI. Stórt orð, stærra hlutverk.

Hún er með eyrun mín.

Fyrstu 12 vikurnar fóru svoldið í að átta sig á þessu, eða fyrir mig að minnsta kosti. Ína mín var aðallega að deyja. Ég reyndi að létta stemminguna, en ég áttaði mig fljótt á því að óumbeðin jákvæðni er ekki rétta leiðin. Ég asnaðist til þess að segja að ég hafi lesið mig til um að mikil morgunógleði er merki um heilbrigt fóstur.

Með æluna í munnvikinu drap hún mig á staðnum.

Beint út í búð að kaupa súkkulaði, og nóg af því.

Að öðru leiti hefur allt gengið mjög vel. Stelpa á leiðinni og núna er helsta vandamálið að finna nafn á dömuna.

Annars ríkir mikil stóísk ró yfir heimilinu þessa dagana og þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af okkur.

Já ástin mín, ekkert mál.

-Spánverjinn í mér alla daga 24/7

Previous
Previous

Níu til fimm

Next
Next

Dvínandi Hamingja á Dollunni